[Gandur] Kviksaga: Íslandsmyndir í Hafnarhúsi

ReykjavíkurAkademían ra at akademia.is
Wed Jan 30 11:29:22 GMT 2008


*Íslandsmyndir í Hafnarhúsi*

Kviksaga frumsýnir, í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og  
rannsóknarverkefnið Ísland og ímyndir Norðursins, heimildamyndina

*Huldufólk 102  eftir Nisha Inalsingh.*

*31. janúar 2008, kl. 17.30 -- 19.30 í Hafnarhúsi.*

Kristinn Schram, þjóðfræðingur, fylgir myndinni úr hlaði.

Að mynd lokinni munu meðal annars Kristinn, Terry Gunnell og Unnur  
Þóra Jökulsdóttir ræða um myndina og hlutverk huldufólks í  
menningarlífi og ímynd Íslands.

Aðgangur ókeypis



*Um myndina*

Ósýnileg þjóð á dularfullri eyju, lífseig þjóðtrú sem  
mótar líf Íslendinga, gatnakerfi og jafnvel dagleg samskipti.   
Með þessa vaxandi mynd af landi og þjóð í farteskinu kannar  
heimildamyndagerðamaðurinn Nisha Inalsingh Ísland og leyndardóma  
náttúrunnar. Með mynd sinni Huldufólk 102, kannar hún mismunandi  
skoðanir fólks til huldra vætta, kafar ofan í reynslusögur og  
tengir við hnattræna stöðu landsins, einangrun, vetrarnætur og  
náttúruundur. Með undirleik hljómsveita á borð við Múm og  
Sigur Rós er leitað svara við leyndardómum og reynt á takmarkanir  
mannlegrar skynjunar.  Sjónarspilinu er ætlað að varpa ljósi á  
þær þverstæður sem búa í hlutskiptum manna: einfaldleiki þess  
sem við búum við í okkar hversdagslífi gegnt þeim  
margbreytileika sem við sjáum ekki í eigin heimi. Huldufólk 102 er  
fyrst í röð Íslandsmyndasýninga Kviksögu í Hafnarhúsinu í  
ár. Hér er um Íslandsfrumsýningu að ræða en hún hefur hlotið  
lof á fjölmörgum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.  
www.huldufolk102.com


*Um Íslandsmyndir*

Íslandsmyndir er yfirheiti á fjölbreyttum kvikmyndum sem eiga það  
sameiginlegt að fjalla um Ísland og Íslendinga. Myndirnar eru  
margvíslegar að eðli, s.s. fræðslumyndir, persónulegar  
ferðasögur, pólitískar áróðursmyndir, sölumyndbönd  
flugfélaga, fiskiðnaðarins eða landbúnaðarvöruframleiðenda og  
myndir sem skreyttu ræður farandfyrirlesara. Kvikmyndirnar viðhalda  
og endurskapa ákveðnar ímyndir sem tekið höfðu að mótast á  
18. og 19. öld.  Samfélagið breytist og Íslandsmyndir með en  
takmarkanir miðilsins setja umfjöllunarefninu einnig nokkrar  
skorður. Íslensk tunga hvarf nánast sem viðfangsefni, enda ekki  
mjög myndvæn. Saga Íslands missti vægi og tengdist Þingvöllum og  
styttum af þjóðhetjum nánum böndum. En náttúran hófst til vegs  
og virðingar. Íslendingar voru (og eru) náttúrubörn í  
Íslandsmyndum en þegar kom fram á 5. áratug 20. aldar urðu  
náttúrubörnin tæknivædd. Íslendingar, einkum íslenskir  
karlmenn, voru umfram allt sjómenn og bændur sem börðust við  
náttúruöflin til að færa björg í bú en höfðu jafnframt  
sigrast á náttúrunni með því að virkja hana til húshitunar og  
rafmagnsframleiðslu. Er þetta ef til vill svipuð ímynd og við  
sjáum í Íslandsmyndum nútímans? Þetta er meðal þess sem  
kannað verður í sýningum og umræðum Kviksögu í vetur.

*Um Kviksögu*

Kviksaga er félagskapur um kvikmyndalist og fræði. Það er  
vettvangur fræði- og áhugamanna á því sviði þar sem fræði og  
kvikmyndalist mætast t.d. við gerð heimildamynda, vídeólistar,  
kennsluefnis eða sjónrænna rannsókna á menningu og listum.   
Kviksaga stuðlar einnig að rannsókn á sjálfu kvikmyndaforminu og  
er vettvangur fyrir áhugasama til að mætast, ræða og vinna  
saman. Á síðastliðnu ári hefur Kviksaga efnt til sýninga á  
heimildamyndum ásamt fræðilegri umfjöllun,  haldið námskeið og  
staðið að kvikmyndahátið. Áfram verður staðið að viðburðum  
og á vefritinu Kviksögu www.kviksaga.is verður að finna  
ritstýrðar greinar, viðtöl, tilkynningar og myndbrot á sviði  
fræða og kvikmyndlistar. Skrifstofa Kviksögu í  
ReykjavíkurAkademíunni er öllum opin til skrafs og ráðagerða og  
til afnota af myndefni og tengslaneti miðstöðvarinnar.   
Upplýsingar í 8661940 og kviksaga at akademia.is

Síðastliðið ár stóð Kviksaga meðal annars að viðburðum í  
Tjarnarbíóí í samvinnu við Fjalaköttinn þar sem saman fóru  
sýningar á heimildamyndum, tónlistarflutningur, fræðileg  
umfjöllun og samræður við kvikmyndgerðamenn.  Af myndum má nefna  
svokallaðar Íslandsmyndir sem spanna alla tuttugustu öldina, video-  
og tónlistarverkið Lífsblómið, heimildamyndir um frásagnir  
sjúkraflutningamanna í Kaliforníu og leigubílstjóra í Edinborg  
og um pönkbylgju í Suður-Kóreu.  Þá má nefna viðburði sem  
sérstaklega voru helgaðir verkum í  vinnslu þar sem  
kvikmyndagerðamenn sýndu brot úr verkum sín, ræddu undanfara og  
næstu skref við áhorfendur.

Um rannsóknarverkefnið Ísland og ímyndir Norðursins

www.inor.is

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20080130/221c317d/attachment-0001.html


More information about the Gandur mailing list