[Gandur] Fyrirlestur á Sumardaginn fyrsta

Félag þjóðfræðinga á Íslandi felagthjodfraedinga at gmail.com
Fri Apr 14 15:07:42 GMT 2017


Sæl og vonandi eru allir að njóta frísins sem meint píning Krists hefur
fært okkur.

Sumarið er á næsta leiti sem MA- fyrirlestur apríl mánaða sem verður eins
og áður í Safnahúsinu á Hverfisgötu kl. 16.00 á Sumardaginn fyrsta.

Í þessum fyrirlestri ætlar þjóðfræðingurinn Sæbjörg Freyja Gísladóttir að
fjalla um meistararitgerð sína en rannsóknin fyrir hana fór fram á Flateyri
á árunum 2013-2016. Rannsóknin var etnógrafía, sem felur í sér að
rannsakandi reynir að verða hluti af samfélaginu og skilja hvaða óskrifuðu
reglur íbúarnir hafa. Sæbjörg flutti jafnframt á Flateyri 2014 og öðlaðist
við það dýpri innsýn í samfélagið. Það fylgja því bæði kostir og gallar að
búa í smáu sjávarþorpi. Nándin er mikil og traust til náungans er
lykilatriði. Stríðnin getur þó verið harkaleg og hvert skref sem
einstaklingar tekur er skráð í minni annarra. Það þola ekki allir slíka
nánd en ef einhver flytur eða deyr þá snertir það alla í þorpinu.
Fiskvinnslan og atvinna hafa alla tíð verið fremur ótrygg á Flateyri en
niðurstöður rannsóknarinnar voru meðal annars þær, að á meðan vinnu væri að
fá, þá vildi fólk hafa fasta búsetu á eyrinni.


Mætum öll og fögnum komu sumarsins með fróðlegum fyrirlestri.

F. h. Þórunn Kjartandsdóttir


*Af hverju Flateyri? Um hafið, fjöllin og þetta margslungna fólk*


Af hverju Flateyri? Af hverju flytur hópur af Filipseyingum, Pólverjum,
Spánverjum, Þjóðverjum, Suður-Afríkubúum, Englendingum og fólk af allskonar
þjóðernum á Flateyri? Af hverju á heimsfræg bandarísk myndlistakona hús í
þorpinu? Eða leikarapar frá Finnlandi? Eða fremstu kvikmyndagerðarmenn á
Íslandi? Eða háskólakennari úr Reykjavík? Hvar eru trillukarlarnir? Og af
hverju ákveður meistaranemi í þjóðfræði að gera lokaritgerð um þetta
tiltekna þorp? Er ekki allt í volli þar? Frystihúsið alltaf lokað og
snjóflóð rétt handan við hornið? Eða er bara eitthvað „sport að vera svona
útí rassgati,“ eins og einn viðmælandinn sagði.


More information about the Gandur mailing list