[Gandur] Ósk eftir erindum á Landsbyggðarráðstefnu.

Félag þjóðfræðinga á Íslandi felagthjodfraedinga at gmail.com
Tue Apr 11 12:03:52 GMT 2017


*Ósk eftir erindum á Landsbyggðarráðstefnu 2017 í Borgarnesi.*

27. -28. maí næstkomandi verður blásið til Landsbyggðarráðstefnu á vegum
Félags þjóðfræðinga á Íslandi í samstarfi við Safnahús Borgarfjarðar,
Reykjavíkur Akademíunnar og Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum –
Þjóðfræðistofu. Hér gefst tækifæri fyrir fræðifólk á fræðasviðum félags- og
hugvísinda að leiða saman hesta sína og miðla af þekkingu sinni bæði til
meðbræðra sinna og –systra en ekki síst að koma rannsóknum og niðurstöðum á
framfæri út fyrir fræðasamfélagið. Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt og
halda erindi á ráðstefnunni eru hvattir til að senda inn heiti og helst 200
orða útdrátt fyrir 25. apríl n.k. á netfangið felagthjodfraedinga at gmail.com.


Reynt verður að koma á móts við fyrirlesara með niðurgreiðslu á gistingu og
ferðakostnað.



*Borgarfjarðarbrúin – Hópar og heimsmynd*

Það eru miklar hræringar í samfélögum út um allan heim og svo hefur ef til
vill alltaf verið. Hópar og hópvitund er grundvöllur samfélaga hvort sem
það er í samtímanum eða fortíðinni. Hópar eru af ýmsum togum fjölmennir og
fámennir og öll okkar tilheyra mörgum ólíkum hópum. Hugtök eins og
minnihlutahópar, jaðarhópar, elítuhópar eða innflytjendur eru allt hugtök
sem við heyrum í daglegri umræðu. Yfirskrift ráðstefnunnar vísar í þessa
ólíku hópa og mikið fleiri sem byggja samfélög í nútíð og fortíð og hvernig
líf fólks mótast af því hvaða hópum það tilheyrir og ekki síst hvaða hópum
það tilheyrir ekki. Hvað geta rannsóknir á sviði félags- og hugvísinda lagt
af mörkum til að byggja brýr á milli hópa, aukið skilning á áhrif þeirra á
samfélög og dregið fram þá sammannlegu þræði sem liggja um öll samfélög í
gegnum ólíkar hópamyndanir?


f.h. félagsins

Þórunn Kjartansdóttir


More information about the Gandur mailing list