[Gandur] Fyrirlestur Valdimars Tr. Hafstein hjá Mannfræðifélaginu

Kristín Einarsdóttir kriste at hi.is
Mon Feb 10 08:27:11 GMT 2014


 Næsti viðburður á vegum Mannfræðifélagsins verður þriðjudaginn 11. febrúar nk. Þá mun dr. Valdimar Tr. Hafstein, dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands flytja erindið Glíman við nútímann: Líkamsstaða, karlmennska og íslenski þjóðarlíkaminn. Fyrirlesturinn verður í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, 4.h., hefst kl. 20:00 og er öllum opinn. 

„Fyrirlesturinn greinir frá þætti glímunnar í mótun íslenskra þjóðfélagsþegna við upphaf 20. aldar þar sem komu saman nýjar hugmyndir um karlmennsku, sjálfstæðishugsjónir og ný stéttaskipan. Stuðst er jöfnum höndum við ritaðar heimildir og myndefni frá fyrstu áratugum 20. aldar til þess að skilja líkamstækni glímunnar og hvernig hún mótaði nýja karlmenn fyrir nýja öld. Sjónum verður beint að áherslunni á líkamsstöðu sem birtist jafnt í glímulögum, kennsluefni, ævisögum, ljósmyndum og kvikmyndum af íþróttinni. Beina bakið birtist reyndar í margvíslegu samhengi á þessu tímabili, innan og utan glímuvallarins. Á fyrri öldum voru það hins vegar þeir sem meira máttu sín sem stóðu teinréttir og horfðu fast fram fyrir sig—beina bakið var hluti af félagslegri dýnamík þar sem aðalsmenn sýndu reisn og undirsátarnir auðmýkt. Fyrirlesturinn les þannig líkama glímukappans á öndverðri 20. öld sem vitnisburð um þjóðfélagsbreytingar, þar sem tákn félagslegrar aðgreiningar voru umrituð til að tákna sjálfstæða og sterka nútímamenn.” 

Allir áhugasamir velkomnir. 

Stjórnin 


More information about the Gandur mailing list