[Gandur] Góssið hans Árna

Aðalheiður Guðmundsdóttir adalh at hi.is
Thu Oct 20 11:14:31 GMT 2011


Góssið hans Árna — erindaröð um handrit úr safni Árna Magnússonar

Laugardaginn 22. október – fyrsta vetrardag – verður hleypt af  
stokkunum erindaröð um valin handrit úr safni Árna Magnússonar.  
Erindin verða síðan á dagskrá annan hvern miðvikudag í allan vetur, og  
lýkur síðasta vetrardag, 18. apríl.


Erindin eru haldin í tilefni þess að handritasafn Árna Magnússonar  
hefur verið tekið upp á varðveisluskrá Menningarmálastofnunar  
Sameinuðu þjóðanna UNESCO „Minni heimsins“. Tilgangur  
varðveisluskrárinnar er að vekja athygli á mikilvægi þess að varðveita  
andlegan menningararf veraldar með því að útnefna einstök söfn sem  
hafa sérstakt varðveislugildi. Upptaka safns Árna á skrána felur í sér  
mikla viðurkenningu á íslenskum handritaarfi. Í rökstuðningi segir að  
handritasafn Árna Magnússonar geymi ómetanleg handrit um sögu og  
menningu Norðurlanda, og raunar stórs hluta Evrópu, allt frá miðöldum  
til nýaldar, og eru Íslendingasögurnar nefndar sem sérstakt dæmi um  
þau verk á heimsvísu sem handritin geyma.

Handritasafnið, sem varðveitt er á Árnastofnununum tveimur í Reykjavík  
og Kaupmannahöfn, geymir um 3000 handrit frá miðöldum og síðari öldum  
auk mörg þúsund skjala. Ákvörðun UNESCO vekur mikla athygli á  
mikilvægi handritanna í alþjóðlegu samhengi og sýnir að þau eiga  
erindi við heiminn allan.

Með erindaröðinni Góssið hans Árna er ætlunin að kynna almenningi  
einstök handrit úr safni Árna og sýna um leið fjölbreytni þess.  
Erindin verða haldin í bókasal Þjóðmenningarhússins, þar sem gestum  
gefst kostur á að skoða handritið sem til umfjöllunar er hverju sinni.

Fyrsta erindið heldur Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar og  
hefst það kl. 15, laugardaginn 22. október. Þar fjallar hún um  
kvæðahandrit Gísla Jónssonar biskups sem hann skrifaði hugsanlega  
handa Helgu dóttur sinni og geymir bæði kaþólsk helgikvæði og lúterska  
sálma. Næsta erindi í röðinni verður miðvikudaginn 26. október kl.  
12.15 þegar Guðrún Ása Grímsdóttir fjallar um merka skjalabók vestan  
af fjörðum sem skráð var á 17. öld af sr. Sigurði Jónssyni frá  
Vatnsfirði. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Nánari upplýsingar  
um dagskrá erindaraðarinnar má sjá á slóðinni www.arnastofnun.is/page/hand_gossid_hans_arna

Einnig veitir Svanhildur Óskarsdóttir (salta at hi.is — s. 525 4012; 846  
6788) frekari upplýsingar.

________________________________
Aðalheiður Guðmundsdóttir,
aðjunkt / Adjunct Lecturer, Folkloristics dept.
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sími/Tel.: +354 5255416/+354 8680306
http://uni.hi.is/adalh/
















More information about the Gandur mailing list