[Gandur] Frásagnir um fermingar í samtímanum

agust at thjodminjasafn.is agust at thjodminjasafn.is
Mon Apr 18 14:37:29 GMT 2011


Sælir þjóðfræðingar og þjóðfræðinemar. 

Eru einhverjir á þessum póstlista sem gætu hugsað sér að leggja 
Þjóðminjasafni Íslands lið við söfnun heimilda um fermingar í samtímanum? 

Þjóðminjasafnið er um þessar mundir að fara af stað með söfnun heimilda um 
fermingarsiði og verður spurningaskrá um þetta efni send út síðar á árinu. 
Þegar hafa verið tekin viðtöl við fulltrúa nokkurra trúfélaga og 
fermingarmessa sótt. 

Ef til vill eru einhverjir á leið í fermingarathöfn eða fermingarveislu á 
næstu dögum eða hafa tekið þátt í þessari siðvenju nýlega. Það sem safnið 
er einkum með í huga eru frásagnir af vettvangi, sérstaklega úr 
fermingarveislum.

Áhugavert væri að fá upplýsingar um sem flest eftirtalinna atriða: 1) Hvar 
er veislan haldin? 2) Klukkan hvað byrjar veislan og hve lengi stendur 
hún? 3) Hvaða veitingar eru á boðstólum (telja upp ef unnt er)? 4) Í hvaða 
mæli eru veitingar aðkeyptar eða heimatilbúnar? 5) Er kokkur eða 
þjónustufólk / ólaunað aðstoðarfólk á staðnum? 6) Hve margir eru 
veislugestir á að giska og hve margir af þeim voru viðstaddir 
fermingarathöfnina? 7) Hverjum er boðið (á athöfnina, í veisluna t.d.)? 8) 
Hverjir sitja saman við borð (fjölskyldur eða blandaður hópur t.d.)? 9) Um 
hvað er helst rætt við þitt borð (dægurmál, ferminguna t.d.)? 10) Blóm og 
skreyting á veislusal. 11) Klæðnaður veislugesta (einhverjir í 
hversdagsfötum t.d.)? 12) Klæðnaður fermingarbarns (nýkeyptur fatnaður, 
jakkaföt, kjóll t.d.)? 13) Hárgreiðsla / klipping fermingarbarns? 14) 
Gjafir (hvað er gefið, hve mikið má gjöfin kosta, peningaupphæð t.d.)? 15) 
Eru gjafir afhentar fermingarbarninu við komuna í veisluna eða settar á 
borð? 16) Eru gjafir opnaðar meðan á veislunni stendur eða eftir á? 17) 
Eru haldnar ræður (hver talar, hvað er sagt t.d.)? 18) Lifandi 
tónlistarflutningur (söngur, hljóðfæraleikur, hverjir flytja og hvenær í 
veislunni)? 19) Önnur skemmtiatriði? 20) Annað sem þú vilt taka fram. 

Stafrænar ljósmyndir eru vel þegnar, ef unnt er, en ekki nauðsyn. Ekki er 
farið fram á lýsingu á sjálfri fermingarathöfninni nema ef einhver hefði 
áhuga á því og er það einnig vel þegið.

Verkefnið er liður í rannsókn á trúarsiðum Íslendinga á vegum 
Þjóðminjasafnsins sem hófst árið 2002 með styrk frá Kristnihátíðarsjóði. 
Áður hafa verið sendar út spurningaskrár um brúðkaupssiði á síðari hluta 
20. aldar, andlát og utför á seinni hluta 20. aldar og nafngjöf og skírn. 

Þeir sem áhuga hefðu á taka þátt í þessu verkefni eða óska eftir frekari 
upplýsingum eru vinsamlegast beðnir um að setja sig í samband við 
undirritaðan.

Bestu kveðjur
Ágúst Ólafur Georgsson
fagstjóri þjóðhátta
Þjóðminjasafni Íslands
Suðurgata 43
101 Reykjavík
Sími  5302200/ 5302273
Netfang agust at thjodminjasafn.is


More information about the Gandur mailing list