[Gandur] Prófessorsfyrirlestrar í dag kl. 16.30 - Terry Gunnell o.fl.

Valdimar Tryggvi Hafstein vth at hi.is
Thu Oct 28 09:31:02 GMT 2010


Kæru þjóðfræðingar,

Í dag kl. 16.30-18.30 heldur Félags- og mannvísindadeild „uppskeruhátíð“ á
Háskólatorgi, stofu 104. Þá munu þrír háskólakennarar sem fengu framgang í
stöðu prófessors árið 2009 kynna rannsóknarsvið sín. Þetta eru þau Terry
Gunnell, prófessor í þjóðfræði, Ágústa Pálsdóttir, prófessor í bókasafns-
og upplýsingafræði og Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði.

Terry Gunnell fjallar um hlutverk Óðins í íslensku samfélagi fyrir
kristnitöku. Eins og nokkrir fræðimenn hafa áður bent á, birtist nafn
Óðins ekki í Landnámabók eða örnefnum á Íslandi og sjaldan í
Íslendingasögum eða þeim ritum byggðum á munnlegum heimildum sem lýsa
átökum fyrir kristnitöku. Það virðist þannig vera að heimsmyndin sem
Snorri birtir í Snorra Eddu og Ynglingasögu sé fyrst og fremst erlend
heimsmynd (t.d. frá konungsmönnum og hermönnum) eða heimsmynd skáldanna
sem bjuggu meðal konungsfólks og hermanna, heldur en heimsmynd
fólks(bænda) sem bjuggu í kringum Snorra á Íslandi. Fyrir hverja var
Snorri að skrifa?

Ágústa Pálsdóttir fjallar um þróun upplýsingahegðunar Íslendinga á sviði
heilsueflingar á árabilinu 2002 til 2007. Fjallað verður um niðurstöður
tveggja rannsókna þar sem m.a. var athugað hversu oft fólk leitaði að
upplýsingum um heilsu og lífsstíl, hvaða mat það lagði á gagnsemi og
áreiðanleika upplýsinganna, hvaða hindranir það upplifði við
upplýsingahegðunina, sem og heilsuhegðun þess (mataræði og hreyfing).
Gagna fyrir rannsóknirnar var aflað með póstkönnunum haustið 2002 og vorið
2007.

Jón Gunnar Bernburg fjallar um félagslegan samanburð og réttlætisupplifun
á krepputímum en kenningar um félagslegan samanburð leggja áherslu á að
einstaklingar sem telja sig búa við lakari lífskjör en þeir hópar sem þeir
hópar sem þeir bera sig saman við (reference groups) séu í hættu á að
upplifa afstæðan skort (relative deprivation) með tilheyrandi álagi og
skertum lífsgæðum. Fjallað verður um niðurstöður úr nýrri rannsókn á
tæplega 1000 fullorðnum Íslendingum þar sem einblínt verður á áhrif
félagslegs samanburðar á líðan og viðhorf einstaklinga.

Að fyrirlestrum loknum verður boðið upp á léttar veitingar. Allir eru
hjartanlega velkomnir.



More information about the Gandur mailing list