[Gandur] Ævispor - Útsaumsverk Guðrúnar Guðmundsdóttur

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Fri Jan 29 10:41:53 GMT 2010


Ævispor
Útsaumsverk Guðrúnar Guðmundsdóttur

Laugardaginn 30. janúar verður sýningin Ævispor – útsaumsverk Guðrúnar 
Guðmundsdóttur opnuð í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands. Á sýningunni má sjá 
útsaumsverk Guðrúnar sem hún hefur unnið með gömul handrit og forn 
útsaumuð klæði að fyrirmynd. Verk Guðrúnar eru tilkomumikil og hafa sterka 
skírskotun í listrænan arf og þjóðlegar hefðir Íslendinga. Þau eru dæmi um 
hvernig íslenskar konur í nútímanum nýta sér menningararfinn og sýna vel 
hvernig hefð og nýsköpun fara saman. Sýningin er liður í þeirri  stefnu 
safnsins  að endurspegla samtímann og tengsl hans við gamlar hefðir. 

Samhliða sýningunni verður úrval útsaumsverka úr fórum safnsins til sýnis 
á 3. hæð. Útsaumurinn er frá 17., 18. og 19. öld og sýnir ómetanlegan arf 
íslenskrar handmenntar.

Guðrún Guðmundsdóttir fæddist í Garðhúsum í Garði árið 1930 og ólst þar 
upp. Hún er dóttir hjónanna Guðmundar F. Eiríkssonar útvegsbónda í 
Garðhúsum og Jennýjar K. Júlíusdóttur frá Bursthúsum á Miðnesi og er 
næstelst sex systkina. Snemma hneigðist hugur Guðrúnar til handmennta en 
það varð til þess að hún fór til Reykjavíkur og hóf nám í kvöldskóla. 
Jafnframt náminu í Handíða- og myndlistaskólanum lærði Guðrún að taka mál 
og sníða föt. Guðrún er einstaklega næm á litasamsetningar og form og eru 
óteljandi þær flíkur, saumaðar, prjónaðar og heklaðar sem hún hefur unnið 
fyrir sig og sína.

Guðrún Guðmundsdóttir hefur saumað 26 veggmyndir í stramma eftir eigin 
hugmyndum, 20 þeirra má sjá á sýningu Þjóðminjasafnsins. Síðustu tvær 
myndirnar lauk hún við í haust er leið. En þá eru ekki taldar með ótal 
minni myndir, veggklæði, rúmábreiður o.fl., sem hún hefur saumað um ævina. 
Þar á meðal eru tvö klæði sem hún saumaði eftir þekktum útsaumsverkum í 
Þjóðminjasafninu, þ.e. riddaraklæðinu svo kallaða og annarri rúmábreiðu 
frá 17. öld. 

Guðrún hefur undanfarin 25 ár stundað ættfræðirannsóknir en þetta áhugamál 
varð kveikjan að nýjum útsaumsmyndum. Sem dæmi má nefna Ættarklæði 
Guðrúnar, en þar má meðal annars sjá æviágrip Guðrúnar,  þar sem hún 
teiknar fríhendis og saumar út atburði úr lífi sínu, ásamt reitum með 
nöfnum ættingja hennar.

Með bestu kveðju,
Helga Vollertsen
Kynningarstjóri
Þjóðminjasafni Íslands
v/Suðurgötu
101 Reykjavík
s. 5302222/gsm 8242039
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20100129/2bead72b/attachment-0001.html 
-------------- next part --------------
A non-text attachment was scrubbed...
Name: not available
Type: image/gif
Size: 83754 bytes
Desc: not available
Url : http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20100129/2bead72b/attachment-0001.gif 


More information about the Gandur mailing list