[Gandur] Gelískir bjarnasöngvar og ítalskar matarhefðir - í kvöld kl. 20

Kristinn H. M. Schram kristinn at akademia.is
Thu Apr 22 16:36:54 GMT 2010


Gelískir bjarnasöngvar og ítalskar matarhefðir

Sumardaginn fyrsta, 22. apríl næstkomandi, bjóða Þjóðfræðistofa og
Félag þjóðfræðinga til kvöldvöku í Sögufélagshúsinu við Fishersund

“FHIR DHUIBH NAN SPÒG” (“Ó þú hinn svarti með hrammana”)

Björninn í skosk-gelískri heimsmynd og söngvum frá Nova Scotia á 19. og 20. öld


Fyrri fyrirlestur kvöldsins flytur Tiber Falzett, doktorsnemi við
þjóðfræðideild Edinborgarháskóla.  Fyrirlestur hans fjallar um ýmsar
gerðir Bjarnasöngva (Òran a’ Mhathain) sem varðveist hafa í
gelískumælandi Nova Scotia og öðrum svæðum Norður Ameríku.    Tiber
mun meðal annars skoða stílbrögð innan tegundarinnar svo sem þá
manngervingu (anthropomorphism)  sem algeng er í söngvum þar sem menn
og dýr kveðast á.  Þá skoðar hann tengsl söngvanna við háðska
rottusöngva innan skosk-geilískarar kvæðahefðar. Tekin verða dæmi af
því þegar landnemar og birnir mætast í munnlegri hefð og kvæðum sem
gengið hafa mann fram af manni.  Gerð verður tilraun til skilja
hlutverk bjarnarins í gelískri heimsmynd fyrir og eftir brottflutning
Skota með vísun í sam- og feluheiti yfir birni. Með rannsókn
þjóðfræðaefnis sem varðveist hefur má einnig finna hliðstæður meðal
norðlægra þjóða þar sem björnin leikur stórt hlutverk í trúarathöfnum.
Þannig má leggja grunn að frekari skilningi á hinu flókna
vistfræðilega sambandi manns og bjarnar.

Seinni fyrirlestur kvöldsins flytur Dr. Giulia De Gasperi frá
Edinborgarháskóla en hún mun segja frá vettvangsrannsókn sinni meðal
íbúa ítalsk-kanadíska samfélagsins í Domion, sem er smáþorp á
Bretónhöfðaeyju í Kanada.  Þetta samfélag byggðist upp eftir fyrri
heimstyrjöld og samanstendur að mestum hluta af innflytjendum sem
fluttust frá Trevigian héraðinu á Ítalíu. Fyrirlesturinn byggir á
munnlegum frásögnum sem lýsa vel þeim matarhefðum sem fluttust frá
“gamla landinu” í bland við nýja matarhætti sem nú eru taldir
hefðbundnir og jafnvel lýsandi fyrir ítalska íbúa Domion.  Einnig
verður rætt um ýmis viðhorf til eldamennsku og það sem talið er að
“góður kokkur“ þurfi að hafa til að bera í þessu tiltekna samfélagi.

Dagskráin hefst kl: 20.00 í Sögufélagshúsinu, Fishersundi

Frekari upplýsingar í síma 8661940 og heimasíðu Þjóðfræðistofu www.icef.is


More information about the Gandur mailing list