[Gandur] Auður fyrr og nú

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Fri Nov 20 09:08:19 GMT 2009


Auður fyrr og nú

Á dögunum kom út sögulega skáldsaga eftir Vilborgu Davíðsdóttur þar sem 
umfjöllunarefnið er landneminn Auður djúpúðga. Af því tilefni efna 
Forlagið og Þjóðminjasafn Íslands til útgáfugleði nk. laugardag, 21. 
nóvember, þar sem mikið verður um dýrðir. Dagskráin er öllum opin, hún fer 
fram í Þjóðminjasafninu og hefst kl. 13.00.

Vilborg er þekkt fyrir vandaðar sögulegar skáldsögur og var m.a. tilnefnd 
til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir þá síðustu, Hrafninn, sem kom út 
árið 2007.  Hún mun kynna bók sína og segja frá tilurð hennar en þar búa 
að baki bæði fjölþættar rannsóknir og ýmis konar grúsk, bæði hér heima og 
erlendis. Vilborg gjörþekkir mannlíf sögutímans og staðhætti á Suðureyjum 
þar sem Ketill flatnefur, faðir Auðar, var höfðingi og fylgir 
viðburðaríkri sögu hennar allt frá fyrstu tíð og þar til hún siglir til 
Íslands.  Þroskasaga Auðar er sögð um leið og dregin er upp einstök mynd 
af þeim róstusömu tímum þegar norrænir menn lögðu undir sig eyjarnar við 
Skotland og herjuðu í Vesturhafi og háðu jafnvel blóðuga bardaga 
innbyrðis.
 
Auðar landsins láta svo sitt ekki eftir liggja. Listakonan Gaga Skorrdal 
sem þekkt er fyrir hönnun sína, sem bæði hefur sterka vísun í íslenska 
sögu og íslenskan nútíma, hefur fengið nokkrar þeirra til liðs við sig og 
munu þær sýna fatnað sem Auðum sæmir. Engin þeirra hefur slík 
fyrirsætustörf að aðalstarfi heldur koma þær saman af þessu óvenjulega 
tilefni og fagna með því nöfnu sinni.

Nánari upplýsingar veitir Vilborg Davíðsdóttir (695-0965).
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20091120/17a0867f/attachment-0001.html 
-------------- next part --------------
A non-text attachment was scrubbed...
Name: not available
Type: image/gif
Size: 32371 bytes
Desc: not available
Url : http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20091120/17a0867f/attachment-0001.gif 


More information about the Gandur mailing list