[Gandur] Nýjar myndir á sýningunni Óþekkt augnablik.

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Fri Nov 13 08:56:06 GMT 2009


Nýjar myndir á sýningunni Óþekkt augnablik.
Þann 12. september 2009 var ljósmyndasýningin Óþekkt augnablik opnuð í 
Þjóðminjasafni Íslands. Sýningin er greiningarsýning á ljósmyndum frá 
tímabilinu 1900-1960 úr Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni og hefur 
verið leitað aðstoðar safngesta við að greina myndefnið. 
Miklar upplýsingar hafa borist um myndirnar á sýningunni og því hefur 
verið ákveðið að skipta myndunum  út fyrir nýjar. Það er von 
Þjóðminjasafnsins að almenningur geti einnig aðstoðað við greiningu nýju 
myndanna. Allar myndir sýningarinnar eru aðgengilegar á heimasíðu 
safnsins, en þar má einnig sjá þær upplýsingar sem hafa borist hingað til.

Í hundrað ár hefur Þjóðminjasafn Íslands safnað ljósmyndum. Söfnunin hefur 
haldist í hendur við þróun ljósmyndunar. Ljósmyndir eru samofnar lífi 
eigandans, einskonar minningabanki sem hann leitar í. Fólk lætur 
ljósmyndir ekki af hendi fyrr en þær missa gildi sitt. Þannig voru það 
fyrst brúntóna harðspjaldamyndir af uppstilltu fólki í sínu fínasta pússi 
sem bárust safninu til varðveislu. Seinna bættust í sarpinn myndir af 
bæjum til sveita, götum þorpa, af fólki að störfum úti og inni og íslensku 
landslagi með sínum fossum og fjöllum. Eftir að atvinnumenn hættu að sitja 
einir að myndatökum og fólk fór sjálft að skapa sér eigin myndasöfn fóru 
litlar skyndimyndir að berast. Vinafólkið á ferðalagi, nesti snætt í laut, 
daglegt líf fjölskyldunnar heima og heiman. Það líður langt frá 
myndatökunni og þar til mynd verður að safngrip og því er enn lítið af 
litmyndum í safninu og enn lengra í land þar til símamyndir samtímans munu 
berast ef að þær hverfa ekki við endurnýjun farsímans. 
Stærsti hluti myndasafnanna eru samt ekki pappírsmyndir heldur glerplötur 
og filmur frá atvinnu- og áhugamönnum. Á þessari sýningu er brugðið upp 
myndum úr sex slíkum filmusöfnum. Þeim er ætlað að sýna þverskurð af 
viðfangsefnum ljósmyndaranna og sýna þróun íslensks samfélags á þeirri 
rúmu hálfu öld sem þær spanna. Jafnframt eru þær gestaþraut þar sem leitað 
er í smiðju safngesta um þekkingu á því sem myndirnar sýna. Hvar eru 
myndirnar teknar? Hvaða fólk er á þeim? 
Í tengslum við sýninguna hefur verið opnað sérstakt vefsvæði á heimasíðu 
Þjóðminjasafnsins, www.thjodminjasafn.is. Þar er hægt að skoða myndirnar 
og geta gestir skráð athugasemdir við þær ef þeir þekkja til fólks eða 
staða á myndunum. Upplýsingarnar eru síðan yfirfarnar og skráðar í 
gagnagrunn safnsins. Upplýsingar sem safnast með þessum hætti eru safninu 
einkar mikilvægar því þær setja nafnlausar myndir í nýtt samhengi og segja 
sögur sem annars hefðu fallið í gleymskunnar dá.
Með bestu kveðju,
Helga Vollertsen
Kynningarstjóri
Þjóðminjasafni Íslands
v/Suðurgötu
101 Reykjavík
s. 5302222/gsm 8242039
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20091113/f3ec41bc/attachment-0001.html 
-------------- next part --------------
A non-text attachment was scrubbed...
Name: not available
Type: image/gif
Size: 41240 bytes
Desc: not available
Url : http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20091113/f3ec41bc/attachment-0001.gif 


More information about the Gandur mailing list