[Gandur] Jólin koma! Jóladagskrá Þjóðminjasafnsins hefst sunnudaginn 6. desember.

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Thu Dec 3 09:35:03 GMT 2009


Jólin koma!
Jóladagskrá Þjóðminjasafns Íslands hefst með pompi og prakt sunnudaginn 6. 
desember. Dagskráin hefst kl. 14 og er aðgangur ókeypis.
Pollapönkararnir Heiðar Örn Kristjánsson og Haraldur Freyr Gíslason, 
einnig þekktir sem Heiðar og Halli úr Botnleðju, munu spila fyrir 
krakkana.  Grýla, Leppalúði og Jólakötturinn kíkja í heimsókn og ræða við 
börnin um íslenska jólasiði. Á Torginu er sýningin Sérkenni sveinanna,en 
þar má sjá jólahús með gripum sem tengjast jólasveinunum. Gripina má 
snerta og geta þeir hjálpað börnum að skilja nöfn jólasveinanna. Í forsal 
á 3. hæð safnsins verður jafnframt hægt að skoða gömul jólatré.
Þá gefst færi á að fara í jólaratleikinn Hvar er jólakötturinn? og finna 
litlu jólakettina sem hafa verið faldir innan um safngripina. Fleiri 
fjölskylduleikir eru í boði í afgreiðslu safnsins. 

Upplagt er að nota tækifærið og skoða sérsýningar Þjóðminjasafnsins. Þar á 
meðal er sýningin   Ása G. Wright – frá Íslandi til Trinidad, sem opnuð 
var 28. nóvember s.l. Þar getur að líta hluta þeirra gripa sem Ása gaf 
safninu á 7. áratug síðustu aldar. Bók um ævi Ásu, Kona þriggja eyja eftir 
Ingu Dóru Björnsdóttur, kom nýlega út hjá Forlaginu. 
Sýningin Endurfundir er  á 1. hæð safnsins, bak við Kaffitár  og Safnbúð. 
Endurfundir  er fornleifasýning ætluð allri fjölskyldunni, þar sem  hægt 
er að skoða gripi sem fundust við fornleifarannsóknir víðsvegar um landið 
á árunum 2001-2005. Auk gripanna er hægt að skoða myndasýningar frá 
uppgröftunum, leira, stimpla með gotnesku letri eða fara í fræðsluspor 
fjölskyldunnar og leysa skemmtilegar þrautir. Einnig eru þarna leynikassar 
sem eru skemmtilegir fyrir yngstu gestina - og jafnvel þá sem eldri eru!
Á ljósmyndasýningunni Óþekkt augnablik í Bogasal á 2. hæð eru safngestir 
beðnir um aðstoð við greiningu myndefnis. Á sýningunni eru myndir úr 
Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni, en lítið er vitað um fólk og 
staði á myndunum og geta gestir bætt við upplýsingum þar sem þeir þekkja 
til.
Safnbúðin er að vanda full af þjóðlegum leikföngum, vönduðum minjagripum, 
íslenskri hönnun og bókum. Hér er hægt að fá margs kyns gjafavöru í 
jólapakkann og auðvitað bæði kerti og spil. Í safnbúðinni fæst  einnig 
suðusúkkulaði í fallegum umbúðum  og uppskrift að heitu súkkulaði fylgir 
með.
En það er líka tilvalið að ljúka heimsókninni með því að fá sér heitt 
súkkulaði og meðlæti í Kaffitári. Þar fást einnig gjafapakkar með 
kaffibaunum og fleira góðgæti.
Með bestu kveðju,
Helga Vollertsen
Kynningarstjóri
Þjóðminjasafni Íslands
v/Suðurgötu
101 Reykjavík
s. 5302222/gsm 8242039
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20091203/23a842f5/attachment-0001.html 
-------------- next part --------------
A non-text attachment was scrubbed...
Name: not available
Type: image/gif
Size: 30851 bytes
Desc: not available
Url : http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20091203/23a842f5/attachment-0001.gif 


More information about the Gandur mailing list