[Gandur] Prisma hefst að nýju 27. apríl - umsóknarfrestur til 17. apríl

Skrifstofa RA ra at akademia.is
Tue Apr 14 11:33:09 GMT 2009


Prisma hefst að nýju 27. apríl - umsóknarfrestur til 17. apríl


Prisma er nýtt þverfaglegt diplómanám sem Listaháskóli Íslands og Háskólinn
á Bifröst hafa skipulagt í samvinnu við Reykjavíkur Akademíuna. Kennt verður
í Hlíðarsmára 3 í Kópavogi á annarri hæð, í húsnæði sem Eimskip lánar
endurgjaldslaust til námsins.

Umsóknarfrestur rennur út 17. apríl kl. 16. Um 70 manns luku Prisma,
diplómanámi á vegum Háskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands í mars
síðastliðnum. Vegna mikillar eftirspurnar og verður Prisma endurtekið 27.
apríl og lýkur 19. júní.

 Metaðsókn var í Prisma sem hófst 2. febrúar og lauk 27. mars. Yfir hundrað
nemendur sóttu um í námið og hefur bæði andinn og afraksturinn í náminu
verið framar vonum. Námið var skipulagt sem viðbrögð háskólanna við
ástandinu í landinu og nú sitja námið nemendur á aldrinum 20 til 65 ára, með
mjög fjölbreyttan bakgrunn hvað menntun og starfsgreinar varðar. Í
nemendahópnum eru einstaklingar sem koma úr fjármálageiranum, viðskiptum og
verslun, grafískri hönnun, arkitektúr, myndlist, leiklist,
fyrirtækjarekstri, kennslu osfrv.

Námsgjald í Prisma er 140.000 krónur og geta nemendur sótt um niðurgreiðslu
á skólagjöldum frá stéttarfélögum, fagfélögum og Vinnumálastofnun. Sem dæmi
greiðir Blaðamannafélagið 100% skólagjöld fyrir atvinnulausa félagsmenn, VR
niðurgreiðir 50-70% af skólagjöldum fyrir félagsmenn að gefnum ákveðnum
skilyrðum og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja niðurgreiða helming
skólagjalda. Skilyrði fyrir inngöngu er stúdentspróf eða jafngildi þess, og
hafa nemendur einnig BA, BSc og meistaragráður.

Prisma er metið til 16 eininga (ECTS) á háskólastigi. Námið nýtist
sérstaklega þeim einstaklingum sem vilja horfa gagnrýnum og uppbyggilegum
augum á samtímann, efla færni sína í að starfa á fleiri sviðum en áður og
styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Meginþáttur í aðferðafræði kennslu og fyrirkomulags er skapandi og gagnrýnin
hugsun en burðargreinar eru listfræði og heimspeki. Mörgum tengdum fögum er
fléttað saman við meginþátt námsins s.s. ímyndafræði, menningarstjórnun,
frumkvöðlafræði, hönnun og tíðaranda, myndmálssögu, tónlistarsögu og
-miðlun, skapandi skrifum, aðferðafræði myndlistar og leikhúss, arkitektúr
og skipulagi, miðlunarfræði, mannfræði, markaðsfræði og stjórnun. Að auki er
boðið upp á gestafyrirlestra einu sinni í viku þar sem sérfræðingar segja
frá því sem er að gerast í stefnumótun, rannsóknum og nýsköpun í samfélaginu
og utan landssteinanna.



*Yfir 50 sérfræðingar koma að náminu*

Yfir fimmtíu sérfræðingar víðsvegar að úr samfélaginu koma að kennslu í
Prisma. Meðal þeirra eru Jón Ólafsson heimspekingur, Hallgrímur Helgason
rithöfundur, Haukur Ingi Jónasson, guðfræðingur og sálgreinandi, Njörður
Sigurjónsson, viðskiptafræðingur og heimspekingur, Kristín Eysteinsdóttir
leikstjóri, Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, Andri Snær
rithöfundur, Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), prófessor við
Listaháskólann, Sveinbjörn I. Baldvinsson, handritshöfundur, Viðar Hreinsson
framkvæmdarstjóri Reykjavíkur Akademíunnar, Hjálmar Ragnarsson, rektor LHÍ
og tónskáld, Sigríður Ingvarsdóttir, rekstrarstjóri frumkvöðlaseturs hjá
Nýsköpunarmiðstöð, Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur, Þorvaldur
Þorsteinsson, rithöfundur og myndlistarmaður, Dóra Ísleifsdóttir, fagstjóri
í grafískri hönnun og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir hönnuður.



*Markmið með náminu*

*1. Þverfagleg þekking*

Nemendur styrki þverfaglega menntun sína sem gerir þeim kleift að setja
ólíkar starfsgreinar, fræðigreinar, hugmyndir og hluti í samhengi og starfa
á fleiri sviðum en áður.

*2. Fleiri verkfæri í verkfæratöskuna*

Nemendur öðlist þau verkfæri, þekkingu, reynslu og stuðning sem geta nýst
þeim til að efla stöðu sína sem uppbyggilegir, skapandi og gagnrýnir
þátttakendur í samfélaginu og láta framsæknar hugmyndir verða að
raunverulegum verkefnum.

*3. Menntun á háskólastigi*

Að námi loknu fá nemendur diplóma sem metið er til 16 eininga (ECTS) á
háskólastigi. Nemendur sem ætla sér frekari menntun við Háskólann á Bifröst
eða Listaháskóla Íslands geta fengið hluta námsins metið inn í nám á
bakkálár- og meistarstigi, að gefnum ákveðnum skilyrðum.

*4. Umbreyting*

Lykilorðið í náminu er umbreyting. Nemendur fá tækifæri til að gaumgæfa þær
umbreytingar sem eru að eiga sér stað í samfélaginu útfrá fjölbreyttum
sjónarhornum undir leiðsögn sérfræðinga. Í slíku umhverfi verða vandamál að
tækifærum, hindranir að flóðgáttum og hugmyndafræðilegt hrun að upphafi á
nýjum og spennandi tímum.

*Skipulag námsins og fyrirkomulag*

Kennsla fer fram á hverjum virkum degi í Hlíðasmára 3 í Kópavogi og í þrjá
miðvikudaga fer kennsla fram í Háskólanum á Bifröst. Heildarfjölda nemenda
verður skipt niður í fjóra hópa sem hver hefur sinn hópstjóra eða
umsjónarkennara. Námið er á háskólastigi og ætlað fólki sem hefur að
lágmarki stúdentspróf eða jafngildi þess.



Nánari upplýsingar veitir:

Hrund Gunnsteinsdóttir forstöðumaður Prisma í síma 895 6371/4584508 eða á
hrund at lhi.is Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpósts þjörkum, Þú verður
að hafa JavaScript virkt til að sjá það. . Einnig er hægt að nálgast
upplýsingar um námið á heimasíðum skólanna: www.lhi.is og www.bifrost.is


ReykjavíkurAkademían

Hringbraut 121, 107 Reykjavík
Sími/Phone: + 354 562 8561
Fax: + 354 562 8528
Netfang/email: ra at akademia.is
Veffang/website: www.akademia.is
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20090414/62d0eff5/attachment.html


More information about the Gandur mailing list