[Gandur] Hugarheimur miðaldakristni - Jón Björnsson sálfræðingur eys úr viskubrunnum í Þjóðminjasafninu 27. nóv. kl. 12:05

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Fri Nov 23 13:55:42 GMT 2007


Hugarheimur miðaldakristni.
Jón Björnsson sálfræðingur ,,eys úr viskubrunnum” í Þjóðminjasafni 
Íslands.

Næstkomandi þriðjudag 27. nóvember klukkan 12:05 gengur Jón Björnsson 
sálfræðingur með gestum Þjóðminjasafnsins um hluta grunnsýningarinnar og 
um sérsýninguna í Bogasalnum, Á efsta degi - býsönsk dómsdagsmynd á Hólum. 

Jón fjallar um hugmyndaheim eða heimsmynd kaþólsku kirkjunnar á ofanverðum 
miðöldum, meðal annars með hliðsjón af dómsdagsmyndum. Hann staldrar við 
nokkur dæmi á safninu sem sýna myndmál þessa heims og vísa til hans. 
,,Dómsdagmyndir þessa tíma,“ segir Jón Björnsson, ,,voru eins konar 
myndasögur eða kennslumynd fyrir almúgann um þessa heimsmynd, - ekki síst 
ólæsa. Þær áttu að brýna fyrir fólki rétta hegðun, með því að benda á hvað 
myndi henda ef það breytti rangt. Samkvæmt heimsmynd miðaldakristni voru 
jarðneskir menn leiksoppar sífelldrar togstreitu góðs og ills. Annars 
vegar var Guð, Kristur, Guðsmóðir, englar, postular og dýrlingar á himnum, 
og kirkjan útibú þeirra á jörðinni. Hins vegar var Kölski, engill sem 
snérist til illsku, og árar hans með höfuðstöðvar í Helvíti, sem sennilega 
var í iðrum jarðar, og inngangur þess jafnvel hér á Íslandi.“
Jón veltir því meðal annars fyrir sér hvernig hafi verið að lifa við þessa 
heimsmynd. Hún er ólík því sem menn eiga að venjast í hinum flókna 
hugarheimi nútímans og virðist fela í sér meira ófrelsi. Að sumu leyti var 
þetta þó einfaldur hugarheimur með skýrum reglum og markmiðum og hefur því 
ef til vill líka gefið tilfinningu um öryggi. Jón leggur þó áherslu á að 
hann er einungis að tala um hugarheim þessa tíma, ekki hin raunverulegu 
lífsskilyrði eða raunheiminn.
Á sýningunni Á efsta degi í Bogasal Þjóðminjasafnsins má sjá fjalir með 
fögrum myndskurði sem varðveist hafa í brotum en eru taldar vera úr 
mikilli dómsdagsmynd sem gæti hafa skreytt Hóladómkirkju á 12. öld. 
Tilraun er gerð til endurgera dómsdagsmyndina samkvæmt tilgátu Harðar 
Ágústssonar.
Þetta er fimmta sérfræðileiðsögnin í vetur í röðinni Ausið úr viskubrunnum 
í Þjóðminjasafni Íslands. Sérfræðingar innan safns og utan ganga þá með 
gestum um safnið, segja frá sýningum og miðla af sérþekkingu sinni. 
Leiðsagnirnar eru fyrir alla.
Fólk er hvatt til að fjölmenna á Þjóðminjasafnið í hádeginu 27. nóvember 
og hlusta á hið áhugaverða erindi Jóns Björnssonar sálfræðings.

Bestu kveðjur / Best regards
Rúna K. Tetzschner
kynningarstjóri / Public Relation Manager
Þjóðminjasafn Íslands / National Museum of Iceland
Suðurgötu 41 - 101 Reykjavík
fars. 824-2039, s. 530-2222 eða 5302248
netf. runa at thjodminjasafn.is
veff. http://www.thjodminjasafn.is
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20071123/d34d2fa4/attachment.html


More information about the Gandur mailing list