[Gandur] Völuspá í Bjarnastaðahlíð - Pétur Pétursson guðfræðingur með leiðsögn í Þjóðminjasafninu

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Fri Nov 2 12:59:01 GMT 2007


Völuspá í Bjarnastaðahlíð
Um býsanskar dómsdagsmyndir og áhrif þeirra
Sunnudaginn 4. nóvember klukkan 15 verður Pétur Pétursson prófessor í 
guðfræði með áhugaverða leiðsögn um sýninguna Á efsta degi í Bogasal 
Þjóðminjasafns Íslands. Til sýnis eru fagurlega útskornar fjalir sem 
taldar eru úr fornri býsanskri dómsdagsmynd Hóladómkirkju. Tilraun er gerð 
til að endurgera þessa stórkostlegu mynd í fullri stærð (sa. 3x9 m).
Pétur Pétursson nálgast útskurðarmyndirnar frá nýstárlegu sjónarhorni. 
Hann veltir fyrir sér hvort kristnar dómsdagsmyndir hafi hugsanlega haft 
áhrif á Völuspá og bendir á vísur og vísuparta úr kvæðinu sem hafa þótt 
torskilin en öðlast merkingu ef skoðað er í samhengi við dómsdagsmyndir 
eins og þá sem sjá má á sýningunni. Sé gert ráð fyrir að slíkar myndir 
hafi verið þekktar í umhverfi kvæðisins á sköpunartíma þess má túlka 
þessar vísur með hliðsjón af því. 

Gert er ráð fyrir að kristnitakan hafi verið langt og flókið ferli sem 
hófst við upphaf landnáms og stóð fram á 11. öld. Á þeim tíma renna 
kristnar og heiðnar hugmyndir víða saman. Þetta virðist meðal annars mega 
sjá í Völuspá en gera má ráð fyrir að hið forna kvæði hafi verið í 
stöðugri endursköpun þangað til það var fest á bókfell á 12. öld, um 
svipað leyti og dómsdagsmyndinni var komið fyrir í Hóladómkirkju. 

Eins og Pétur bendir á hafa sambærilegar dómsdagsmyndir verið í umferð í 
Evrópu frá því á 9. öld. Þær hafa auk þess borist víða á íkonum, í 
útskurði og handritum. Í öllum þessum myndum er meginþemað hinn býsanski 
eða austræni dómsdagur sem austurkirkjan skilgreindi út frá kenningum 
biblíunnar um þúsundáraríkið og endurkomu Krists á dómsdegi. 
Kirkjuyfirvöld vígðu þessar myndir til notkunar í trúboði og helgihaldi. 
Ýmsar útgáfur þeirra má finna í rómverskri og keltneskri kristni og þær 
urðu mönnum mikið umhugsunarefni þegar aldamótin 1000 nálguðust og menn 
bjuggu sig undir nýja sköpun og endurkomu öflugs konungs af himni sem öllu 
ræður.
 
Pétur Pétursson er prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands og verður 
vafalaust gaman að hlusta á hann ausa úr brunnum þekkingar sinnar á 
sunnudaginn kemur. Nú gefst gott tækifæri til að skoða sýninguna Á efsta 
degi og fá jafnframt lifandi og skemmtilega leiðsögn.


Bestu kveðjur / Best regards
Rúna K. Tetzschner
kynningarstjóri / Public Relation Manager
Þjóðminjasafn Íslands / National Museum of Iceland
Suðurgötu 41 - 101 Reykjavík
fars. 824-2039, s. 530-2222 eða 5302248
netf. runa at thjodminjasafn.is
veff. http://www.thjodminjasafn.is
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20071102/9ca61bf6/attachment.html


More information about the Gandur mailing list