[Gandur] Þjóðfræðibíó á sunnudaginn!

Valdimar Tryggvi Hafstein vth at hi.is
Thu Mar 29 14:34:25 GMT 2007


Sælir þjóðfræðingar,

Mig langar að vekja sérstaka athygli ykkar á bíósýningu í Tjarnarbíó á
sunnudaginn kl. 17, en þá sýnir Kviksaga þar heimildamynd eftir
þjóðfræðinginn Timothy Tangherlini og félaga hans Stephen J. Epstein um
pönk í Suður-Kóreu. Einnig verður sýnt úr bráðfyndinni og dálítið
óhugnanlegri heimildamynd Tangherlini, Talking Trauma, um
sjúkraflutningamenn í Oakland og kaldhæðna frásagnarhefð þeirra, en ég get
borið um að sú mynd er frábær og hef notað hana í kennslu í Þjóðfræði
samtímans.

Kollegi okkar Kristinn Schram gerir svo áhorfendum í Tjarnarbíói grein
fyrir fræðilegum bakgrunni þessara heimildamynda og -- það sem mestum
tíðindum sætir -- sýnir okkur jafnframt brot úr sinni eigin mynd,
Negotiating the City, sem byggir á rannsókn hans á frásögnum
leigubílstjóra í Edinborg.

Til að toppa skemmtunina er aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Ég mæli eindregið með þessari fínu þjóðfræðilegu sunnudagsskemmtun svona
áður en dymbilvikan gengur í garð.

Sjáumst svo á morgun á afmælisþingi Jóns Hnefils á Þjóðminjasafninu.

Bestu kveðjur,
Valdimar

----------------------------------------
KVIKSAGA KYNNIR:

Frásagnamenning og mótstaða í nútímaborgum

Tjarnarbíó, sunnudaginn 1. apríl kl. 17:00

Our Nation: A Korean Punk Rock Community (2002)- Stephen Epstein og
Tim Tangherlini

Talking Trauma – Tim Tangherlini   (1995)

Verk í vinnslu: Negotating the City (stutt sýnishorn) – Kristinn Schram

Aðalmynd kvöldsins Our Nation, gerist í kjölfar alþjóðavæðingar og
batnandi efnahags í Suður-Kóreu en þá spruttu upp nýjir
menningarkimar ungs fólks. Frá 1994 – 1999 fylgdust
heimildamyndargerðarmennirnir með næturklúbbnum Drug og uppkomu
hljómsveitanna Crying Nut og Yellow Kitchen.  Mynd þeirra skoðar þær
flóknu leiðir sem ungt fólk fer til að skapa eigin sjálfsmynd í á
margan hátt íhaldsömu þjóðfélagi. Hún ljair þeirri margradda frásögn
eyra sem vekur máls á samfélagsmálum eins og kyngervingu í kóreisku
pönki, hlutverki skólakerfisins í lífi æskunnar og þeim hröðu
breytingum sem eiga sér stað innan menningarkimanna sjálfra sem bera
þá nær og nær meginstraumnum. Í Talking Trauma fylgist
þjóðfræðingurinn Tim Tangherlini með kaldhæðnislegum frásögnum
sjúkraflutningamanna. Sögur þeirra eru skoðaðar sem úrlausn erfiðrar
reynslu og liður í valdabaráttu við samstarfsmenn sem oft tekur á sig
grátbroslegar myndir.  Kristinn Schram, þjóðfræðingur, segir frá
fræðilegum bakgrunni þessara heimildamynda og sýnir brot úr
Negotiating the City sem fjallar um rannsókn hans á frásögnum
leigubílstjóra í Edinborg.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.





More information about the Gandur mailing list