[Gandur] Kviksaga kynnir: Ímynd Íslands í kvikmyndum

Rósa Þorsteinsdóttir rosat at hi.is
Mon Mar 5 11:14:28 GMT 2007


Kviksaga kynnir í samvinnu við Kvikmyndasafn Íslands og Fjalaköttinn: 

 

ÍMYND ÍSLANDS Í KVIKMYNDUM

Sýning í Tjarnarbíó

Mánudaginn 5. mars kl. 19.00

Aðgangur ókeypis

 

Þann 5. mars næstkomandi mun Kviksaga og Fjalakötturinn sýna úrval
Íslandsmynda í Tjarnarbíói. Íris Ellenberger sagnfræðingur mun fylgja
myndunum úr hlaði en Íris hefur skrifað mastersritgerð um efnið við Háskóla
Íslands. Fyrri mynd kvöldsins verður með lifandi undirleik Hallvarðar
Ásgeirssonar.

 

Dagskrá kvöldsins

Íslandsfærd (valdar senur) eftir Leo Hansen frá árinu 1929

Sýnd með lifandi undirleik Hallvarðar Ásgeirssonar

og

This is Iceland eftir Kjartan Ó. Bjarnason frá árinu 1960

 

 

Íslandsmyndir er heiti á fjölbreyttum kvikmyndum sem eiga það sameiginlegt
að fjalla um Ísland og Íslendinga. Myndirnar eru margvíslegar að eðli:
fræðslumyndir, pólitískar áróðursmyndir, sölumyndbönd flugfélaga,
fiskiðnaðarins eða landbúnaðarvöruframleiðenda og myndir sem skreyttu ræður
farandfyrirlesara. Sumar myndanna eru aðeins varðveittar að hluta, aðrar að
fullu. Sumar eru í léleg ástandi en aðrar eru aðeins varðveittar á síðum
dagblaða í formi umsagna og gagnrýni. Stjórnendur þeirra eru allt frá
bandarískum skólastjórum með klippivél, eða streðandi kvikmyndagerðarmönnum
sem eiga erfitt með að eiga fyrir næstu máltíð, til atvinnumanna með volduga
bakhjarla. Fyrstu heimildir um gerð Íslandsmynda eru frá árinu 1901 og þær
eru enn í framleiðslu, aðallega að tilstuðlan ferðaþjónustunnar. Með öðrum
orðum, eðli, framsetning, aldur og varðveisla myndanna er misjafnlega
háttað. Myndirnar eiga þó sameiginlegan þann megintilgang að gera helstu
einkennum Íslands og Íslendinga skil. Það gera þær jafnframt á mjög svipaðan
hátt, þótt undarlegt megi virðast.

Kvikmyndirnar skapa Íslandi ímynd sem þegar hafði mótast á 18. og 19. öld.
Þær endurskapa og þróa þá ímynd. Samfélagið breytist og Íslandsmyndir með.
Takmarkanir hins nýja miðils setja umfjöllunarefninu einnig nokkrar skorður.
Íslensk tunga hvarf nánast sem viðfangsefni, enda ekki mjög myndvæn. Saga
Íslands missti vægi og tengdist Þingvöllum og styttum af þjóðhetjum nánum
böndum. En náttúran hófst til vegs og virðingar. Íslendingar voru (og eru)
náttúrubörn í Íslandsmyndum en þegar kom fram á 5. áratug 20. aldar urðu
náttúrubörnin tæknivædd. Íslendingar (lesist: íslenskir karlmenn) voru
umfram allt sjómenn og bændur sem börðust við náttúruöflin til að færa björg
í bú en höfðu jafnframt sigrast á náttúrunni með því að virkja hana til
húshitunar og rafmagnsframleiðslu. Er þetta ef til vill svipuð ímynd og við
sjáum í Íslandsmyndum nútímans?

 

Frekari upplýsingar í síma 8661940 (Kristinn)

 <mailto:kviksaga at akademia.is> kviksaga at akademia.is

www.kviksaga.is

 

 

Um Kviksögu og Kvikmyndaklúbbinn Fjalaköttinn

 

Kviksaga er miðstöð kvikmynda og fræða. Kviksaga er vettvangur þar sem fræði
og kvikmyndir mætast t.d. við gerð heimildamynda, vídeólistar, kennsluefnis
eða sjónrænna rannsókna á menningu og samfélagi. Kviksaga stuðlar einnig að
samræðum og rannsóknum á kvikmyndaforminu og er grundvöllur fyrir áhugasama
til að mætast, ræða og vinna saman. Á síðastliðnu ári hefur Kviksaga efnt
til sýninga ásamt fræðilegri umfjöllun, haldið námskeið og staðið að
kvikmyndahátíð. Á vefriti Kviksögu www.kviksaga.is er að finna ritstýrðar
greinar, viðtöl, tilkynningar og myndbrot á sviði fræða og kvikmynda.
Skrifstofa Kviksögu í ReykjavíkurAkademíunni er öllum opin til skrafs og
ráðagerða, afnota myndefnis og tengslanets miðstöðvarinnar.

 

Kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn er nýr vettvangur fyrir kvikmyndasýningar
á Íslandi. Klúbburinn á heimili sitt í hinu sögufræga Tjarnarbíói og hefur
það að markmiði að stórauka kvikmyndaúrval hér á landi með því að bjóða upp
á sýningar á annars konar myndum en hefur tíðkast í bíóhúsum bæjarins
síðastliðin ár. Klúbburinn mun blanda saman gömlu og nýju, gera grein fyrir
kvikmyndagerð ákveðinna þjóðlanda, taka verk ákveðins leikstjóra fyrir og
kynna strauma og stefnur á ákveðnum tímabilum eða í nútímanum. Sjá dagskrá
Fjalakattarins á www.filmfest.is

VIÐ HVETJUM KVIKSÖGUGESTI TIL ÞESS AÐ SKRÁ SIG Í KLÚBBINN!

 

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20070305/61497ea1/attachment-0001.html


More information about the Gandur mailing list