[Gandur] Sagnafólk í samtíma sínum

Aðalheiður Guðmundsdóttir adalh at hi.is
Fri Jan 26 09:21:23 GMT 2007


Sagnafólk í samtíma sínum: þemakvöld á vegum Félags þjóðfræðinga á  
Íslandi

Þemakvöld um sagnafólk verður haldið í húsi Sögufélagsins,  
Fischersundi þann 1. febrúar kl. 20.00. Fyrirlesarar eru Ingibjörg  
Gestsdóttir og Rósa Þorsteinsdóttir.

Ingibjörg Gestsdóttir, BA í þjóðfræði kynnir efni lokaritgerðar  
sinnar: „Ég byrja bara og svo kemur hitt“. Ingibjörg vann ritgerð  
sína upp úr viðtölum og rannsókn á efniviði sagnamannsins Gests  
Friðjónssonar. Hún skoðar vísur og frásagnir Gests og lítur á  
umheiminn í gegnum sögurnar, í hvaða formi sem þær eru.

Rósa Þorsteinsdóttir, MA í þjóðfræði og starfsmaður Stofnunar Árna  
Magnússonar í íslenskum fræðum nefnir erindi sitt „Sögukona úr  
Sellátri“. Rósa fjallar um Kristínu Níelsdóttur sem fæddist árið 1910  
og ólst upp í einni af hinum óteljandi eyjum Breiðarfjarðar. Sögur  
hennar og kvæði voru hljóðrituð á árunum 1965 til 1975. Stóran hluta  
af sagnasjóði sínum hefur Kristín átt frá barnæsku og þar eiga sagnir  
úr fjölskyldunni sér fastan stað. Þessar sagnir af forfeðrum sínum,  
sem oft sáu eða heyrðu eitthvað yfirnáttúrlegt, segir hún aftur og  
aftur, í hverri upptökunni af annarri. Sagnir af æskuslóðunum,  
eyjunum á Breiðafirði, eru henni einnig hugleiknar og hún trúir efni  
þeirra yfirleitt. Það vekur athygli er að þótt Kristín virðist hafa  
verið alin upp við sagnir frekar en ævintýri, hefur áhugi hennar á  
fullorðinsárum frekar beinst að ævintýrum. Langflest fjalla þau um  
greindar og ráðagóðar stúlkur sem reynast oftast fremri karlkyns  
hetjunum við að ráða fram úr málum og birta með því oft á tíðum sömu  
lífsviðhorf og sagnirnar sem Kristín segir af formæðrum sínum.

Aðalheiður Guðmundsdóttir
Stofnun Árna Magnússonar
Árnagarði við Suðurgötu
tel.: (354) 868 0306/ (354) 552 0510
http//:www.hi.is/~adalh








More information about the Gandur mailing list