[Gandur] Minningarmörk og ljósmyndir - þrír áhugaverðir fyrirlestrar í Þjóðminjasafninu 5. og 6. des.

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Tue Dec 4 18:39:21 GMT 2007


Minningarmörk og ljósmyndir 
Þrír áhugaverðir fyrirlestrar í Þjóðminjasafni Íslands 5. og 6. desember

Þrír áhugaverðir fyrirlestrar eru í boði í Þjóðminjasafninu 5. og 6. 
desember. Aðalfundur Hins íslenzka fornleifafélags verður haldinn 5. 
desember klukkan 16 í fyrirlestrarsalnum. Að loknum aðalfundarstörfum mun 
Gunnar Bollason sagnfræðingur og verkefnisstjóri hjá Fornleifavernd 
ríkisins flytja fyrirlestur um eldri minningarmörk, legsteina og 
steinsmíði á Íslandi.
Hið íslenzka fornleifafélag sem stofnað var 1879 er áhugafélag um 
fornleifar og aðrar menningarminjar og gefur út Árbók hins íslenzka 
fornleifafélags.
Þann 6. desember klukkan 14:30, á afmælisdegi dr. Kristjáns Eldjárns 
fyrrum þjóðminjavarðar, verða svo þær Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur og 
Sigrún Sigurðardóttir sagnfræðingur og menningarfræðingur með málstofu þar 
sem þær kynna rannsóknarverkefni sín en báðar vinna við 
ljósmyndarannsóknir í rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns.
Fyrirlestur Æsu heitir Myndir úr köldu stríði og fjallar um rannsóknir 
hennar á ljósmyndum kalda stríðsins og myndir Werners Bischof frá Íslandi 
sem nýlega komu í leitirnar. Myndirnar eru hluti af umfangsmiklu verkefni 
sem var skipulagt af ECA stofnuninni í París til að kynna Marshall 
aðstoðina í Evrópu.
Fyrirlestur Sigrúnar heitir Afturgöngur og ræðir hún um heimildagildi 
ljósmynda, sannleika, blekkingu og félagslegt raunsæi í ljósmyndum, einkum 
af börnum og unglingum við vinnu á sjó. Sigrún segir: ,,Ljósmyndin er 
heimild um atburð sem átti sér stað á ákveðnum tíma, en um leið og hún 
gerir kröfu um að segja sannleikann um þennan atburð verðum við að draga 
vitnisburð hennar í efa. [...] Hún er eins og vofa eða afturganga, hvorki 
raunveruleg né óraunveruleg, en um leið er hún hvort tveggja.“
Allir eru velkomnir og ekkert kostar inn.

Bestu kveðjur / Best regards
Rúna K. Tetzschner
kynningarstjóri / Public Relation Manager
Þjóðminjasafn Íslands / National Museum of Iceland
Suðurgötu 41 - 101 Reykjavík
fars. 824-2039, s. 530-2222 eða 5302248
netf. runa at thjodminjasafn.is
veff. http://www.thjodminjasafn.is

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20071204/54c69b00/attachment.html


More information about the Gandur mailing list