[Gandur] Fræðimaðurinn Jón Ólafsson. Málþing á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2005

gisli.sverrir at thjodminjasafn.is gisli.sverrir at thjodminjasafn.is
Mon Nov 14 09:52:53 GMT 2005


Fréttatilkynning:

Fræðimaðurinn Jón Ólafsson. Málþing á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 
2005

Á undanförnum mánuðum hefur þess verið minnst að liðin eru 300 ár frá 
fæðingu fornfræðingsins Jóns Ólafssonar, sem kenndi sig við Grunnavík. 
Hann ólst upp í Víðidalstungu, fór til Kaupmannahafnar 1726, varð þá 
skrifari Árna Magnússonar handritasafnara og skráði allt safn hans að 
honum látnum 1730. Jón starfaði síðan að íslenskum fræðum við Árnasafn í 
Kaupmannahöfn til æviloka 1779. Hann uppskrifaði aragrúa rita, samdi mikla 
íslensk-latneska orðabók, íslenskt rithöfundatal, ævisögu Árna Magnússonar 
og fjölda annarra fróðleiksverka sem oft og víða er vitnað til.

Jóni til heiðurs var opnuð sýning á Þjóðminjasafni Íslands 16. ágúst sem 
ber heitið "Eldur í Kaupinhafn - 300 ára minning Jóns Ólafssonar úr 
Grunnavík." Jafnframt var þá kynnt útgáfa á merku riti Jóns, "Relatio af 
Kaupinhafnarbrunanum 1728". Sýningin stendur til 1. desember. 

Á menningarnótt, 20. ágúst, var sérstök dagskrá í Þjóðminjasafni helguð 
Jóni og nú á degi íslenskrar tungu, miðvikudaginn 16. nóvember, verður enn 
dagskrá í hans nafni, "Fræðimaðurinn Jón Ólafsson". 

Málþingið fer fram í Þjóðminjasafni Íslands. Þar flytur Guðrún Kvaran, 
forstöðumaður Orðabókar Háskólans, erindi um málfræðistörf Jón Ólafssonar; 
lesið verður upp úr nokkrum verkum hans; og loks flytur Svavar 
Sigmundsson, forstöðumaður Örnefnastofnunar, erindi um málrækt í ritum 
Jóns Ólafssonar.

Málþingið hefst kl. 12.15 og stendur í u.þ.b. klukkustund. Að því standa 
Góðvinir Grunnavíkur-Jóns í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. 
Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.

Kær kveðja,
_________________________________________
Gísli Sverrir Árnason kynningarstjóri/Public Relations Manager
Þjóðminjasafni Íslands/National Museum of Iceland
Suðurgötu 41, 101 Reykjavík
Sími/Tel.: 530 2200 og/and 530 2209. GSM: 824 2039
gisli.sverrir at thjodminjasafn.is
www.thjodminjasafn.is/www.nationalmuseum.is
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20051114/dccd4d59/attachment.html


More information about the Gandur mailing list