[Gandur] Landsbyggðarráðstefna 2020

Félag þjóðfræðinga á Íslandi felagthjodfraedinga at gmail.com
Wed Feb 26 16:26:35 GMT 2020


Komiði sæl,

Þessi póstur inniheldur spennandi upplýsingar um Landsbyggðarráðstefnuna
2020 sem haldin verður á Egilsstöðum 15.-17. maí.


*Ákall eftir erindum*

Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Minjasafn Austurlands minna á að enn er
hægt að senda inn erindi fyrir Landsbyggðarráðstefnuna 2020 en fresturinn
er til *1. mars* næst komandi!

Kallað er eftir erindum fyrir Landsbyggðarráðstefnuna 2020. Yfirskrift og
þema ráðstefnunnar eru *Vegamót* (nánari lýsing fyrir neðan). Miðað er við
að hvert erindi taki 20 mínútur í flutningi. Áhugasamir eru beðnir að senda
titil og stutt ágrip (200-300 orð) á netfangið felagthjodfraedinga at gmail.com
fyrir 1. mars næstkomandi. Öllum er frjálst að senda inn erindi og endilega
hafið samband ef eru einhverjar spurningar.

Þema ráðstefnunnar.
Yfirskriftin Vegamót vísar til þess að á landsbyggðarráðstefnunni mætist
fólk úr ólíkum áttum; fólk frá ólíkum landshornum, fólk úr ýmsum
fræðigreinum, nemar á ýmsum stigum í námi, áhuga- og fræðafólk. Þar mætast
líka ólík viðfangsefni, hugmyndir, aðferðir og nálganir, fortíð og nútíð og
hinir ýmsu krókar og kimar mannlífsins. Vegamót standa líka fyrir
hreyfanleika, ferðalög og breytingar. Þegar komið er að vegamótum er venjan
að staldra við, horfa í kringum sig, kanna ólíka möguleika og jafnvel líta
yfir farinn veg. Svo þarf að ákveða hvort breyta eigi um stefnu eða halda
áfram á sömu leið.

Yfirskriftin hefur svo einnig skemmtilega tilvísun til staðsetningar
ráðstefnunnar á Egilsstöðum en þeir hafa í gegnum tíðina verið nefndir
vegamót Austurlands.


*Dagskrá*

Dagskrá ráðstefnunnar einnig farin að taka á sig mynd og má hér sjá drög að
dagskránni, en hafa ber í huga að hún gæti enn átt eftir að taka einhverjum
breytingum og eitthvað átt eftir að bætast við.) Hægt verður að skrá sig á
ráðstefnuna í heild sinni þegar nær dregur.

Föstudagur
18:00 Móttaka og setning ráðstefnunnar í Minjasafni Austurlands. Unnur
Birna Karlsdóttir, sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknarseturs HÍ á
Austurlandi kynnir starfsemi Rannsóknarsetursins og rannsóknir sínar á sögu
hreindýra hér á landi. Hægt verður að skoða sýningar safnsins og
Minjasafnið býður upp á léttar veitingar.

Laugardagur
9:30 Málstofa á Hótel Valaskjálfi
11:30 Hádegisverður á Hótel Valaskjálfi
12:30 Málstofa á Hótel Valaskjálfi
14:30 Skoðunarferð í Óbyggðasetur Íslands í Fljótsdal, keyrt verður á rútu
í gegnum Hallormsstaðaskóg og meðfram Lagarfljóti. Leiðsögumaður verður
Baldur Pálsson, sagnamaður, Freysgoði og formaður Söguslóða Austurlands,
félags áhugafólks um sögu Austurlands. Einnig verður stoppað á
Skriðuklaustri þar sem tekið verður á móti hópnum og sagt frá starfseminni
og þeim miðlunarverkefnum sem þar er unnið að. Gunnarsstofnun býður upp á
léttar veitingar.
18:30 Komið til baka í Egilsstaði
19:00 Kvöldmatur og skemmtun - nánari upplýsingar þegar nær dregur

Sunnudagur
10:00 Nánari upplýsingar þegar nær dregur:)
11:00 Aðalfundur Félags Þjóðfræðinga á Íslandi á Minjasafni Austurlands
12:00 Ráðstefnunni formlega slitið
12:00 Hádegismatur


Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Minjasafn Austurlands standa að
ráðstefnunni í samvinnu við fleiri aðila. Hér má finna ráðstefnuna á
Facebook:
https://www.facebook.com/events/569738857123390/?active_tab=discussion


Bestu kveðjur, við hlökkum til að sjá ykkur!


More information about the Gandur mailing list