[Gandur] Fyrsti fyrirlestur vetrarins og Haustfögnuður

Félag þjóðfræðinga á Íslandi felagthjodfraedinga at gmail.com
Tue Sep 19 14:30:52 GMT 2017


Dagskrá Félags þjóðfræðinga hefst þetta haustið á fyrirlestri Ásdísar
Haraldsdóttur um það sem flestir eru með hugann við þessa dagana, réttir,
og daginn eftir verður Haustafagnaður félagsins með draugöngu og fleiru.
(Sjá nánar neðst)

Fyrirlestur Ásdísar Haraldsdóttur um upplifun leitarmanna á
Álfthreppingaafrétti á Mýrum. Safnahúsinu 21. september kl. 16.00.

Öll höfum við þörf fyrir einhvers konar tilbreytingu eða afþreyingu frá
daglegu amstri hvort sem við búum í sveit eða borg. En það er misjafnt hvað
fólk lítur á sem tilbreytingu eða afþreyingu. Allt fer það eftir áhuga
hvers og eins. Auðvitað er hægt að segja að tilbreyting sé bara eins og
orðið segir til um, að breyta til, en flestir tengja notkun orðsins við að
gera eitthvað sem veitir gleði eða ánægju. Að gera eitthvað annað en gert
er hversdagslega og að hafa jafnframt gaman. Sauðfjárbændur og aðrir sem
fara í leitir á Álfthreppingaafrétti á Mýrum líta á hefðbundið, lögbundið
starf sauðfjárbænda, haustleitir, sem eina bestu tilbreytingu sem hugsast
getur.
Í rannsókn Ásdísar í þjóðfræði var spurt hvað það er sem dregur fólk í
fjárleitir á Álfthreppingaafrétti, hvernig fólk upplifir leitirnar, hvaða
tilfinningar sú upplifun veki og hvort og þá hvað hafi breyst með nýjum
kynslóðum. Hvað er þetta sterka aðdráttarafl sem veldur því að ungt fólk
getur ekki beðið eftir að verða gjaldgengt í leitum um fermingaraldur og
fjörgamlir menn eiga þá ósk heitasta að þeir kæmust enn í leitir? Hvers
virði eru leitirnar fyrir einstaklinginn og samfélagið? Hvað verður um
þetta samfélag ef sauðfjárbúskapur dregst enn meira saman?

Haustfögnuður

Föstudaginn 22. september mun Félag Þjóðfræðinga á Íslandi standa fyrir
miklum haustfögnuði svo takið kvöldið frá!
Skemmtunin mun byrja kl. 18:00 á Háskólasvæðinu þar sem farið verður yfir
dagskrá vetrarins og viljum við endilega heyra hugmyndir ykkar og hverju
þið hefðuð áhuga á í vetur!
Eftir það ætlar þjóðfræðingurinn Björk Bjarnadóttir að leiða okkur í
magnaða draugagöngu niður í miðbæ sem fær hárin til að rísa!
Við munum svo koma okkur vel fyrir á happy hour niðri í miðbæ, spjalla og
skemmta okkur langt fram á nótt!

Nánari upplýsingar um staðsetningar koma fljótlega!
Hlökkum til að sjá ykkur.


More information about the Gandur mailing list