[Gandur] Málþing á morgun 13-16: Á vængjum hins óáþreifanlega -tónlist, menning og arfur

Valdimar Tryggvi Hafstein vth at hi.is
Thu May 8 09:18:48 GMT 2014


Rannsóknarstofa í tónlistarfræðum heldur málþing í Sölvhóli við LHÍ

á morgun, föstudaginn 9. maí 2014

Kl. 13:00-16:00

Á VÆNGJUM HINS ÓÁÞREIFANLEGA: TÓNLIST, MENNING OG ARFUR

 Fjallað verður um tónlistina sem menningararf frá ýmsum hliðum.
Áhugarverð erindi, tónlistarflutningur, spjall og veitingar í boði
Rannsóknarstofunnar

Fram koma:

Valdimar Tr. Hafstein
Sigríður Aradóttir
Helga Rut Guðmundsdóttir
Berglind María Tómasdóttir
Spilmenn Ríkínís

Allir velkomnir!

Nánari upplýsingar:
http://menntavisindastofnun.hi.is/tonlistarfraedi/malthing_9_mai_2014

Nánar um dagskrá:

Valdimar Tr. Hafstein: Flug kondórsins: Menningararfur, menningarvernd og
menningarþjófnaður

„El Condor Pasa“ varð heimsfrægt í flutningi Simon and Garfunkel árið
1970, en lagið á sér merkilega sögu bæði fyrir og eftir þessa frægustu
útgáfu þess. Í fyrirlestrinum verður slóð kondórsins rakin frá Andes
fjöllum til evrópskra og bandarískra stórborga; frá Teatro Mazzi í Líma
til dansklúbba í París; frá panflautu til píanós og frá symfoníusveitum
til diskóteksins; frá frumbyggjatónlist til popptónlistar; og frá
heimstónlistarsenunni til þjóðlegs menningararfs. Á meðal helstu persóna
og leikenda eru, auk þeirra Paul Simon og Art Garfunkel: tónskáldið Daniel
Alomía Robles, hljómsveitin Los Incas, Cerro de Pasco Koparkompaníið,
Victor Talking Machine Corporation, Falangista-Sósíalistaflokkur Bólivíu,
Chuck Berry og UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Fyrirlesturinn gerir uppruna sáttmálans um verndun óáþreifanlegs
menningararfs að rannsóknarefni og sögur sem sagðar eru af honum, ásamt
hugmyndum um menningareign og menningareigendur. Meginmarkmið
fyrirlestrarins er að skoða sambandið á milli menningarverndar og
menningarþjófnaðar.


Sigríður Aradóttir: Trommusöngvar og kvæðamenn, svanasöngur og upprisa,
epli og appelsínur...

Þjóðtónlist Íslendinga annars vegar og Grænlendinga hins vegar eru tvær
áhugaverðar en ólíkar tónlistargreinar. Hvað geta þessar tónlistargreinar
mögulega átt sameiginlegt? Hvað er það sem helst skilur á milli? Hvernig
er grænlensk þjóðtónlist og hvað er þjóðtónlist yfir höfuð? Hér verður með
augum hinnar þverfaglegu greinar menningarstjórnunar reynt að finna svör
við þessum spurningum. Stiklað verður á stóru um hugtakið þjóðtónlist,
tæpt á því hvað felst í þjóðtónlist þjóðanna tveggja og þessar
tónlistargreinar skoðaðar út frá sögunni en einnig sem parti af nútímanum
og það sem einkennt hefur ferð þeirra frá fortíð til nútíðar sem og
birtingarmynd í menningu samtímans.


Helga Rut Guðmundsdóttir: Uppáhaldssöngvar: Rannsóknir á söngvum íslenskra
leikskólabarna

Í rannsóknum á söngfærni leikskólabarna undanfarin ár hefur upptökum verið
safnað með söng 3-6 ára barna. Stuðst hefur verið við alþjóðlegt
söngfærnipróf ATBSS sem lagað hefur verið að ungum börnum. Skýrt verður
stuttlega frá því hvernig þessar rannsóknir stuðla að samanburði á
söngfærni barna milli landa og hvernig íslensk börn koma út í samanburði
við börn í öðrum löndum. Í erindinu verður greint frá því hvaða sönglög
3-6 ára íslensk börn velja sér að syngja þegar þau syngja lag að eigin
vali.


Berglind María Tómasdóttir: Í leit að tónlistarlegu sjálfi

Rockriver Mary er heiti á tónlistarlegu hliðarsjálfi sem ég hef komið fram
undir á undanförnum árum. Hún á sér tvær birtingarmyndir sem byggðar eru á
þjóðlegum erkitýpum: Annars vegar er hún amerískur kúreki og hins vegar
íslensk fjallkona. Í erindinu mun ég gera grein fyrir tilurð Rockriver
Mary og tilvistarkreppu klassíska hljóðfæraleikarans sem leitar að
tónlistarlegu sjálfi.

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari sem vinnur þvert á marga
miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna sjálfsmyndir og erkitýpur.
Hún hefur unnið talsvert með vídeólist, leikhús og tónlist í performönsum
sínum svo sem í hennar rómaða I’m an Island. Berglind María hefur komið
fram á Listahátíð í Reykjavík, Bang on a Can maraþoninu í San Francisco,
Sumartónleikum í Skálholtskirkju, CMMAS tölvutónlistarsetrinu í Morelia í
Mexíkó, Myrkum músíkdögum, MSPS New Music Festival í Shreveport,
Louisiana,  REDCAT í Los Angeles og Nordic Music Days svo fátt eitt sé
nefnt. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem
einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir
Ashkenazy. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í
Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Hún lauk nýverið
doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San
Diego.


Spilmenn Ríkínís: Marta Guðrún Halldórsdóttir og Örn Magnússon
Rætt verður  um nálgun tónlistarmannsins flytjandans við þjóðararfinn og
hvaða áskoranir felast í því að endurlífga og flytja gamla tónlist.
Erindið verður borið fram með lifandi tónlistarflutningi.





More information about the Gandur mailing list