[Gandur] Tradition for Tomorrow. Kall eftir fyrirlestrum

Rósa Þorsteinsdóttir rosat at hi.is
Mon Feb 24 09:54:51 GMT 2014


Tradition for Tomorrow

Norræn listahátíð á Akureyri

20. – 23. ágúst næstkomandi verður haldin norræn þjóðlistahátíð á Akureyri. Þar koma fram hæfileikaríkir tónlistarmenn og dansarar frá Norðurlöndunum öllum og sýna hvaða kraftur, fegurð og fjör býr í listformi byggðu á rótgrónum hefðum. Allir eru velkomnir á hátíðina, enda er hún vissulega fyrir fólk á öllum aldri og ekki síst unga fólkið sem eflaust uppgötvar að nýja íslenska tónlistin teygir rætur sínar langt aftur í aldir.

Aldrei fyrr hefur verið haldin listahátíð með þjóðtónlist og þjóðdansi allra Norðurlanda. Á hátíðinni má heyra og sjá kraftmiklar hljómsveitir, fjörugan dans, flottan söng og hljóðfæraleik. Einnig verða mörg námskeið í boði, s.s. að spila á kantele og þjóðlagafiðlu, syngja þjóðlög frá Svíþjóð, Færeyjum og jafnvel Grænlandi og dansa hambo, polska og vikivaka. Tónleikar, danssýningar og námskeið fara fram um allan Akureyrarbæ, frá morgni fram á nótt, inni jafnt sem úti, fyrir gesti og gangandi, svo bærinn iðar af fjöri. Íslenskum tónlistarmönnum, hljómsveitum, dönsurum og danshópum er boðið að taka þátt í hátíðinni með því að senda inn rafræna umsókn sem má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar www.tradition.is. Umsóknarfrestur er til og með 1. maí 2014.

Í samstarfi við tónlistarskóla landsins verður ungu og upprennandi tónlistarfólki boðin þátttaka í hátíðinni með því að koma fram á Sprotasviði. Þar gefst unga fólkinu tækifæri til að túlka íslenska þjóðlagatónlist á frumlegan og skemmtilegan hátt og einnig sjá og heyra færustu þjóðtónlistarmenn Norðurlanda. Viðburðastofa Norðurlands hefur umsjón með tónleikum, sýningum og námskeiðum. Miðasala fer fram á heimasíðu hátíðarinnar og opnar í byrjun mars.

Á hátíðinni verða líka fræðimenn að fjalla um norræna þjóðtónlist og þjóðdansa og norrænir ráðamenn til að kynnast fjölbreyttri flóru norrænnar menningar og skiptast á skoðunum um verndun menningarerfða. Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur umsjón með ráðstefnunni en hún fer fram í húsakynnum Háskólans á Akureyri. Óskað er eftir fyrirlestrum á ráðstefnuna og nálgast má rafrænt umsóknarform á heimasíðunni (Submit Abstract). Öllum er velkomið að taka þátt í ráðstefnunni og fræðast um norræna þjóðtónlist og þjóðdansa en nauðsynlegt er að þátttakendur skrái sig á heimasíðu hátíðarinnar. Opnað verður fyrir almenna skráningu í síðustu viku febrúar.

Að hátíðinni stendur Norræna þjóðtónlistarnefndin (Nordisk Folkmusik Kommitté) sem eru rótgróin og kraftmikil samtök sem starfa á sviði þjóðtónlistar og þjóðdansa. Innanlands koma fjölmargir aðilar að undirbúningi hátíðarinnar, svo sem ÞjóðList ehf, Viðburðastofa Norðurlands, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, Ferðaskrifstofa Akureyrar, Stemma – landssamtök kvæðamanna, Dansfélagið Vefarinn, Rannsóknarstofa í tónlistarfræðum við Háskóla Íslands, Norræna húsið, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Heimilisiðnaðarfélagið, Handraðinn, Útón, Íslandsstofa og Félag tónlistarskólakennara.

Heimasíða hátíðarinnar er www.tradition.is

Framkvæmdastjóri hátíðarinnar er Guðrún Ingimundardóttir, tónlistarfræðingur og íslenski fulltrúinn í Norrænu þjóðtónlistarnefndinni.

Tradition for Tomorrow, Norræna þjóðlistahátíðin er styrkt af Norrænu menningargáttinni.





More information about the Gandur mailing list