[Gandur] Bo Almqvist látinn

Gisli Sigurdsson gislisi at hi.is
Mon Nov 11 16:08:56 GMT 2013


Látinn er á Írlandi Bo Almqvist fyrrum prófessor í þjóðfræði við University College í Dyflinni. Bo fæddist 1931 á Vermalandi í Svíþjóð og stundaði nám við Uppsalaháskóla þar sem hann varði doktorsritgerð sína um Norrön niddiktning (sem kom út í tveimur bindum 1965 og 1974). Á árunum 1954-60 var Bo sendikennari í sænsku hér á landi og var jafnframt með þeim fyrstu sem luku prófi árið 1959 í íslensku fyrir erlenda stúdenta - og var þá undir handarjaðri Einars Ól. Sveinssonar. Bo gat sér snemma gott orð í íslensku menningarlífi, gerði skrána um gerðir ævintýra fyrir 6 binda þjóðsagnaútgáfu Jóns Árnasonar 1961 og skrifaði áhrifamikla grein í Skírni sama ár um ákvæðaskáld. Þá varð hann ekki síður þekktur fyrir grein sína um ferlegri fótinn í Lesbók Morgunblaðsins 29-31, árið 1968 - þar sem Bo tengdi söguna af hinum ljóta fæti Þórarins Nefjólfssonar í Heimskringlu við írska þjóðsögu. Eftir Íslandsdvölina varð Bo dósent í Uppsölum og eftirmaður kennara síns Dag Strömbäck en sneri sér smám saman að írskum fræðum og lærði mikið af Séamus Ó Duilearga - sem lagði grunn að söfnun þjóðfræða á segulbönd hér á landi. Bo tók seinna við stöðu Duilearga í Dyflinni og gegndi henni til starfsloka. Bo var alla sína tíð með öflugustu menningarsendiherrum Íslands, þýddi og fjallaði um fornsögur á sænsku og skrifaði mikið um menningaráhrif hinna gelísku þjóða á íslenska hefð - auk þess að safna og skrifa um írskar þjóðsögur. Bo kom oft til Íslands hin síðari ár, starfaði um hríð á Árnastofnun, sótti ráðstefnur og flutti hér fyrirlestra. Greinasafn með helstu greinum Bo á yngri árum, Viking Ale: Studies on folklore contacts between the Northern and the Western worlds kom út á sextugsafmæli hans 1991. Eftirlifandi kona Bo Almqvist er Éilís Ní Dhuibhne rithöfundur og eignuðust þau synina Ragnar og Olaf. Dóttir Bo af fyrra hjónabandi er Marja.


Sjálfur kynntist ég Bo fyrst þegar ég fór til náms í Dyflinni haustið 1983. Hann var einstaklega opinn, skemmtilegur, hjálpsamur og örlátur á fræði sín og tíma - ekki síst hafði hann gaman af að æfa sig í íslenskunni. Blessuð sé minning Bo Almqvist,

Gísli


More information about the Gandur mailing list