[Gandur] Verslun og útgerð við Breiðafjörð

Aðalheiður Guðmundsdóttir adalh at hi.is
Thu May 2 18:27:17 GMT 2013


Áhugavert málþing á Hellissandi
 
Dagana 9.-10. maí er boðað til málþings á Hellissandi um verslun og útgerð við Breiðafjörð á árunum milli 1300 og 1600. Máþing þetta er haldið í minningu Ólafs Elímundarsonar sagnfræðings en hann lést árið 2003,  81 árs að aldri. Nú eru því liðin 10 ár frá andláti hans. Þeir sem boða til þessa málþings eru ritnefnd bókarað­arinnar Jöklu hinnar nýju eftir Ólaf, Þjóðgarðurinn Snæfells­jökull, Lista- og menn­ingar­nefnd Snæfellsbæjar, Þróunarfélag  Snæfellinga og Fjölbrautaskóli Snæfellinga sem varð­veitir viðamikið bókasafn sem Ólafur lét eftir sig.
Dagskráin hefst kl. 14:30 fimmtudaginn 9. maí sem er uppstigningardagur. Þá hefst við Hótel Hellissand skoðunarferð um sögu- og útsýnisstaði í nágrenninu sem tengjast umræðuefni málþingsins. Þessari skoðunarferð verður síðan fram haldið á föstudagsmorgninum kl. 10:00. Leiðsögumenn skoðunarferða verða Skúli Alex­andersson, Sæmundur Kristjánsson og Lilja Björk Pálsdóttir.
Eftir kvöldverð á Hótel Hellissandi kl. 18 sem þátttakendum býðst ef þeir óska hefst málþingið sjálft síðan kl. 19:30. Þeir sem flytja erindi þar eru Guðmundur Sæmundsson sem flytur setningarávarp, Einar Gunnar Pétursson sem fjallar um fræða­störf Ólafs Elímundarsonar, Sverrir Jakobs­son sem flytur erindið Efnahags­legar undirstöður valds í Breiða­firði á 14. og 15. öld, Lilja Björk Pálsdóttir sem fjallar um fornminjar á Gufuskálum, Helgi Þorláksson sem flytur erindi sem hann nefnir  Frá Byrstofu til Snæfellsness, Ragnheiður G. Gylfadóttir sem flytur erindið Gildi fornminja og loks Jón Eggert Bragason sem slítur málstofunni.
Gestastofa þjóðgarðsins er opin gestum málþingsins frá kl. 13-17 á föstu­deginum.  Hótel Hellissandur býður upp á gistingu með morgun­verði á góðu verði: Tveggja manna herbergi kr.  14.000 nóttin, eins manns herbergi kr. 12.000, þriðja gistinóttin frí.
(Fréttatilkynning.
Nánari upplýsingar veitir Skúli Alexandersson,
sími 436-6619 eða 892-4143)
 


More information about the Gandur mailing list