[Gandur] Hádegiserindi fimmtudaginn 13. október kl. 12 "Íslensk tunga - upphaf og þróun, rituð mynd og hljóðmynd"

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Wed Oct 12 10:51:27 GMT 2011


Íslensk tunga - upphaf og þróun, rituð mynd og hljóðmynd

Norræna félagið í Reykjavík og Þjóðminjasafn Íslands bjóða til 
hádegisfundar fimmtudaginn 13. október kl. 12:00 í fyrirlestrarsal 
Þjóðminjasafnsins.  Aðalsteinn Davíðsson, cand. mag. flytur erindi sem ber 
yfirskriftina „Íslensk tunga - upphaf og þróun, rituð mynd og hljóðmynd“. 
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Í erindi sínu fjallar Aðalsteinn meðal annars um skyldleika íslensku og 
annarra norrænna tungumála, hvenær leiðir skildust og hver þróun tungunnar 
hefur verið.  Að loknu erindinu svarar Aðalsteinn fyrirspurnum. 
Fundarstjóri verður Bjarki M. Karlsson, íslenskufræðingur.

Aðalsteinn Davíðsson er fæddur á Eiðum í Suður-Múlasýslu 1939, stúdent frá 
Menntaskólanum á Akureyri 1958 og cand. mag. í íslenskum fræðum 
(bókmenntir, málfræði, saga) 1966. Síðar bætti hann við sig prófgráðum í 
uppeldisfræðum, finnsku og forngrísku. Hann var í fjögur ár sendikennari í 
Helsingfors en hefur einnig kennt við háskóla í Åbo og Lundi. Hann var í 
rúm tuttugu ár kennari við Menntaskólann við Sund, íslenskur ritstjóri 
Sænsk-íslenskrar orðabókar, sem út kom 1982, og einn af ritstjórum 
Íslenskrar orðabókar sem út kom 2002. Aðalsteinn var  málfarsráðunautur 
Ríkisútvarpsins frá 2002-2009 er hann fór á eftirlaun. Hann hefur til 
skamms tíma komið fram reglulega á Rás-1 með málfarsspjall. Jafnframt 
hefur hann lagt fyrir sig þýðingar og hlotið lof fyrir. Hann hefur hlotið 
margar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. sænsku Norðstjörnuorðuna, 
verðlaun úr Finnsk-íslenska menningarsjóðnum og menningarverðlaun 
Sænsk-íslenska samstarfssjóðsins.


More information about the Gandur mailing list