[Gandur] Húmorsþing Þjóðfræðstofu

Kristinn H. M. Schram kristinn at akademia.is
Wed Mar 23 15:50:39 GMT 2011


Þriðja Húmorsþing Þjóðfræðistofu verður haldið 1. og 2. apríl.
Húmorsþingið er bæði vetrarhátíð og málþing um húmor sem fræðilegt
viðfangsefni. Það er nú haldið í þriðja sinn á Hólmavík á Ströndum.

Á málþinginu munu fræðimenn stíga á stokk og varpa ljósi á nýjustu
rannsóknir og miðlun á húmor.  Rætt verður um hin ýmsu form húmors,
svo sem brandara, uppistand, satíru og íroníu ásamt margvíslegri iðkun
þeirra í daglegu lífi. Fjallað verður um húmor sem valdatæki í baráttu
þjóðfélagshópa og ýmsar birtingarmyndir húmors í bókmenntum,
fjölmiðlum, ljóð- og myndlist. Í sérstakri málstofu verður rætt um
húmor jaðars og miðju; þéttbýlis og dreifbýlis; valdahópa og þeirra
valdaminni. Nemendur eru sérstaklega velkomnir og stendur til boða að
sitja málþingið og skrifa um það námsritgerðir í samstarfi við
fyrirlesara. Á meðal fyrirlesara og listamanna verða Íris Ellenberger,
Ása Ketilsdóttir, Kristinn Schram, Þorsteinn Guðmundsson, Jón Jónsson,
Kolbeinn Proppé og Kristín Einarsdóttir.

Auk fræðilegrar dagskrár verður meðal annars á boðstólnum barþraut
(pub quiz) um íslenska kímni, kvikmyndasýning á heimildamyndinni
Uppistandsstelpur og heilmikil uppistandsdagskrá. Auk þess verður í
annað sinn efnt til grínkeppninnar sívinsælu Orðið er laust.

Sætaferðir frá Reykjavík verður laugardagsmorgun 2. apríl.
Dagskrá auglýst nánar á næstu dögum. Áhugasamir hafi samband í
dir at icef.is eða í síma 8661940.

Þjóðfræðistofa
www.icef.is


More information about the Gandur mailing list