[Gandur] Deilt um trúnað á viðkvæmum viðtalsgögnum

agust at thjodminjasafn.is agust at thjodminjasafn.is
Fri Jul 22 12:01:02 GMT 2011


Sæll Valdimar.

Þetta eru mjög mikilvægar og áhugaverðar spurningar - og geta verið 
afgerandi þegar verið er að rannska viðkvæm efni eins og þú bendir 
réttilega á.

Ég get sagt frá því sem varðar þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins. Þar hafa 
heimildarmenn verið skráðir með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt 
upplýsingum um sjálfa sig. Lengi vel var greint frá því á prenti hverjir 
heimildarmenn væru en eftir að auknar kröfur um persónuvernd komu fram 
hefur reglan verið að gefa aðeins upp skráningarnúmer (t.d. 16758 sem er 
dagbókarskrif skólabarns árið 1998), kyn og upprunahérað. Þrátt fyrir 
þennan varnagla er eigi að síður hægt að fá fullar upplýsingar um 
heimildarmann. Það kostar þó töluverða fyrirhöfn og krefst aðgangs að 
Sarpi sem nú er aðeins veittur á minjasöfnum. Þar að auki gilda 
höfundarréttarlög um aðföng þjóðháttasafns. "Sé heimildarmaður á lífi skal 
leitað leyfis ef hafður er eftir honum orðréttur texti í prentuðum ritum 
eða öðrum opinberum fjölmiðlum, hvort sem vitnað er í hann með nafni eða 
ekki. Sé heimildarmaður látinn skal hafa samband við aðstandendur ef um er 
að ræða texta af persónulegu tagi." Heimildarmenn hafa því mikið að segja 
varðandi afhendingu gagna. Auk þess eru ýmis ákvæði í höfundarréttarlögum 
og hefur verið unnin sérstök greinargerð í þessu sambandi  fyrir 
Þjóðminjasafnið.

Lengst af hefur þjóðháttasafnið unnið með "fastan" hóp heimildarmanna en 
einstakan sinnum verið sent á úrtak úr þjóðskrá. Það á t.d. við um 
spurningaskrá um kreppuna sem send var út í janúar 2010. Talið var 
vænlegra að þeirri skrá yrði svarað nafnlaust vegna þess að um viðkvæmt 
efni var að ræða. Svörin voru skráð nanflaus og er því ekki hægt að rekja 
þau til heimildarmanna. Úrtak úr þjóðskrá var einnig notað við næstu 
spurningaskrá og gátu heimildarmenn valið um að svara nafnlaust eða ekki. 
Mjög fáir svöruðu nafnlaust. Þau fjögur ár sem ég hef verið við 
þjóðháttasafnið hafa heimildarmenn aðeins í undantekningartilvikum farið 
fram á nafnleynd þar fyrir utan og á engum gögnum hvílir sú kvöð að ekki 
megi lesa þau fyrr en eftir svo eða svo mörg ár, t.d. 50 ár eða  eftir 
fráfall heimildarmanns. Þjóðháttasafnið er öllum opið, einnig fjölmiðlum. 
Öll birting á efni eða tilvitnunum í það skal þó vera með vitund safnsins 
og í samráði við það. Safnið getur því neitað að afhenda viðkvæm eða 
persónuleg gögn en flest eru þau ekki þess eðlis.

Ef til þess kemur að þurfi að gera sérstakt trúnaðarsamkomulag við hópa 
eða einstaklinga yrði það væntanlega í samráði við lögfræðing 
Þjóðminjasafnsins þannig að samkomulagið héldi gagnvart lögum. 

Í Svíþjóð eru heimildarmenn skráðir undir nafni og kennitölu en ekki í 
Noregi. Þar eru mjög ströng ákvæði um persónuvernd. Norsk etnologisk 
granskning áskilur sér allan rétt varðandi notkun efnisins en þó þannig að 
sleginn er vörður um persónu heimildarmanns.

Bestu kveðjur
Ágúst Ólafur Georgsson
fagstjóri þjóðhátta
Þjóðminjasafni Íslands
Suðurgata 43
101 Reykjavík
Sími  5302200/ 5302273
Netfang agust at thjodminjasafn.is



From:   "Valdimar Tryggvi Hafstein" <vth at hi.is>
To:     gandur at hi.is
Date:   21.07.2011 12:12
Subject:        [Gandur] Deilt um trúnað á viðkvæmum viðtalsgögnum
Sent by:        gandur-bounces at listar.hi.is



Einhverjum á þessum lista finnst þessi frétt kannski áhugaverð. Bresk
stjórnvöld vilja fá aðgang að gögnum á miðstöð munnlegrar sögu við
Bostonháskóla, þ.m.t. að upplýsingum um við hvern er rætt í hljóðritunum.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið styður kröfu þeirra, en háskólinn ber hins
vegar við trúnaðarskyldu við heimildamenn.

Málið snýst um fjöldann allan af viðtölum sem rannsakendur hafa tekið um
átökin á Norður-Írlandi, og breska lögreglan telur sig geta notað til að
rannsaka morð, mannrán og ofbeldisglæpi. Viðmælendum var hins vegar
heitinn trúnaður til dauðadags. Háskólinn færir fyrir því rök að ef
yfirvöld hafi þennan trúnað að engu komi það í veg fyrir að hægt verði
framvegis að rannsaka viðkvæm efni með viðtölum og dragi því til lengri
tíma litið úr söguþekkingu okkar og skilningi á samfélaginu.

Hér eru tvær frásagnir af málinu á Inside Higher Ed vefnum:

http://www.insidehighered.com/news/2011/07/05/federal_government_questions_confidentiality_of_oral_history

http://www.insidehighered.com/news/2011/07/18/qt#265270

Hvernig ætli þessu sé háttað hér á landi? Er heimildamönnum þjóðfræðisafns
Árnastofnunar, þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins eða Miðstöð munnlegrar
sögu í einhverjum tilvikum heitinn trúnaður? Hvernig ætli þessar stofnanir
séu í stakk búnar til að efna trúnaðarsamkomulag? Eru þær e.t.v. bundnar
af upplýsingalögum - og þurfa þá að afhenda hverjum sem biður um þau öll
gögn, þ.m.t. fjölmiðlum?

Ég býst ekkert frekar við svörum, en varpa þessu fram hér á gandi af því
að mér þykja þetta áhugaverðar spurningar og ég held að þær séu mikilvægar
fyrir fagið hér á landi sem annars staðar.

Bestu kveðjur,
Valdimar

_______________________________________________
Gandur mailing list
Gandur at listar.hi.is
http://listar.hi.is/mailman/listinfo/gandur



More information about the Gandur mailing list