[Gandur] Soffía Guðný Guðmundsdóttir vindur vef handrita á rannsóknarkvöldi Félags íslenskra fræða 7. apríl kl. 20

Rósa Þorsteinsdóttir rosat at hi.is
Tue Apr 5 12:09:05 GMT 2011


Annað rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á vormisseri 2011 verður  
haldið fimmtudaginn 7. apríl, kl. 20 í húsi Sögufélagsins,  
Fischersundi 3. Þar flytur Soffía Guðný Guðmundsdóttir,  
íslenskufræðingur, fyrirlestur sem hún nefnir Vindum, vindum vef  
handrita: af fræðsluvef um íslensk miðaldahandrit og norræna  
menningarsögu. Höfundur lýsir erindi sínu á þessa leið:

Vefsíðan Handritin heima www.handritinheima.is er fræðsluvefur um  
tilurð, varðveislu, efni og hlutverk íslenskra miðaldahandrita í  
norrænni menningarsögu sem hentar jafnt í skólum og til almennrar  
kynningar á handritunum og þeim menningararfi sem þau eru til vitnis  
um. Sambærilegt efni hefur ekki verið tekið saman um verk- eða  
bókmenningu annarra þjóða á miðöldum svo vitað sé og því veitir  
vefurinn einnig innsýn í hlut Íslands í evrópskri miðaldamenningu.

Þýska útgáfan var formlega opnuð þar 23. júní 2010 og tengd vefsíðu  
verkefnisins Sagenhaftes Island fyrir bókamessu í Frankfurt seinna á  
þessu ári. Á síðasta ári var efnt til samstarfs við handritastofnanir  
og háskóla á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi sem felst í að  
ljúka samningu Sögunnar, seinni hluta vefsins, þýða efni hans og setja  
upp íslenska, danska, sænska og þýska gerð í tíma fyrir bókamessuna í  
október 2011.

Í erindi Soffíu verður vefurinn kynntur og sagt frá efni hans og  
tilurð, og hvernig hann nýtist til að miðla þekkingu um íslensk  
handrit og menningu á miðöldum bæði á Íslandi, sem og á Norðurlöndunum  
og í Þýskalandi.

Soffía Guðný Guðmundsdóttir er verkefnisstjóri samstarfsverkefnis um  
fræðsluvefinn Handritin heima sem nær til fjögurra landa undir  
yfirskriftinni Íslensk miðaldahandrit og norræn menningarsaga. Hún  
lauk M.Paed. prófi frá Háskóla Íslands árið 2005 og vinnur nú að M.A.  
ritgerð í íslenskum fræðum.


Allir eru velkomnir.

Bestu kveðjur,
Sesselja Helgadóttir
formaður Félags íslenskra fræða


More information about the Gandur mailing list