[Gandur] Auglýst eftir forstöðumanni Þjóðtrúarstofu

Sögusmiðjan sogusmidjan at strandir.is
Sun Feb 10 11:58:46 GMT 2008


Heil og sæl, 

hér að neðan fylgir texti auglýsingar þar sem auglýst er eftir forstöðumanni fyrir nýtt fræðasetur á Hólmavík á sviði þjóðfræði sem kallað er Þjóðtrúarstofa. Stendur Strandagaldur ses á bak við verkefnið, en það fyrirtæki er þekktast fyrir uppbyggingu Galdrasýningar á Ströndum. 

Þjóðtrúarstofan hyggur á mikla landvinninga og verkefnavinnu á sviði miðlunar, skráningar og rannsókna, ásamt uppbyggingu mennta- og menningartengdrar ferðaþjónustu í samvinnu við fjölda aðila. Forstöðumaður mun móta starfsemi stofunnar að miklu leyti, en ýmsar hugmyndir og verkefni eru líka komin nálægt byrjunarreit. Hér er um að ræða mjög spennandi stöðu og ætlunin er síðan að ráða í fleiri stöður hjá Þjóðtrúarstofu strax á þessu ári í samráði við nýjan forstöðumann. Í framtíðinni er hugmyndin að Þjóðtrúarstofa verði 3-5 manna vinnustaður á Hólmavík þar sem starfsmenn hafa háskólamenntun í þjóðfræði eða skyldum greinum. Umsóknarfrestur er til 3. mars. 

Bestu kv. 

Jón Jónsson, þjóðfræðingur á Ströndum 
og menningarfulltrúi Vestfjarða. 




Forstöðumaður Þjóðtrúarstofu á Ströndum

Strandagaldur ses óskar eftir að ráða forstöðumann Þjóðtrúarstofu á Ströndum. Um er að ræða nýtt fræðasetur á Hólmavík á sviði þjóðfræði sem forstöðumaður tekur þátt í að móta og þróa. Stefnt er að ráðningu fleiri starfsmanna strax á þessu ári í náinni samvinnu við forstöðumann.

VERKEFNI
Helstu verkefni Þjóðtrúarstofu eru rannsóknir og miðlun menningararfsins í samvinnu við fjölda ólíkra aðila, mennta- og menningarstofnanir. Þá er unnið að uppbyggingu menningar- og menntatengdrar ferðaþjónustu, skráningarverkefnum tengdum þjóðfræði og sagnfræði, námskeiðahaldi og kennslu og umsjón höfð með upplýsingamiðstöð um íslenska þjóðtrú.

HÆFNI OG MENNTUN
- Meistarapróf í þjóðfræði eða skyldum greinum
- Stjórnunar- og skipulagshæfileikar
- Góð tungumála- og tölvukunnátta
- Drifkraftur og frumkvæði
- Úthald til að fylga verkefnum til enda
- Lipurð í samskiptum, sveigjanleiki og metnaður

UMSÓKNARFRESTUR
Umsóknarfrestur er til 3. mars 2008. Umsóknum skal skilað til Strandagaldurs ses, Höfðagata 8-10, 510 Hólmavík. Nánari upplýsingar eru gefnar í netfanginu galdrasyning at holmavik.is og síma 891-7372.

Hólmavík er stærsta kauptún á Ströndum í sveitarfélagi með um 500 íbúa. Á staðnum er fyrirmyndar grunnskóli, nægt leikskólapláss og góð íþróttaaðstaða. Menningar- og félagslíf á staðnum er með miklum ágætum og stöðugleiki í atvinnulífi. Einstök náttúra og fjölbreytt útivistartækifæri einkenna Strandir.
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20080210/02f62187/attachment.html


More information about the Gandur mailing list