[Gandur] Kynngimagnað kvöld í Þjóðminjasafninu - opið hús á Safnanótt 8. feb. 19-01

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Tue Feb 5 16:07:27 GMT 2008


Kynngimagnað kvöld í Þjóðminjasafni Íslands
Opið hús á Safnanótt 8. febrúar klukkan 19-01
Kynngimagnað andrúmsloft verður ríkjandi á Safnanótt 8. febrúar í 
Þjóðminjasafni Íslands. Opið hús verður frá klukkan 19 til 01 um nótt og 
ekkert kostar inn. Á dagskrá er bæði hryllingur og dulúð, - en einnig 
ýmislegt fagurt. Draugar og afturgöngur verða á ferli og opnaðar verða 
ljósmyndasýningar. Rannsóknir Æsu Sigurjónsdóttur listfræðings eru kynntar 
á sýningunni Til gagns og til fegurðar - sjálfsmyndir í ljósmyndum og 
klæðnaði á Íslandi 1860-1960 og myndir Veru Pálsdóttur má sjá á sýningunni 
Tvö-þúsund-og-átta.
Draugarnir ærslast og hátt lætur í hinni hrekkjóttu og þjóðlegu Skottu sem 
segir börnunum skemmtilegar sögur af draugum og vættum klukkan 19:30 og 
20:30. Atli Rafn Sigurðarson leikari verður á annarri hæð klukkan 21, 22 
og 23 og segir hrollvekjandi draugasögur. Hann fræðir einnig gesti um 
mismunandi tegundir drauga, hvernig má vekja þá upp og fæla frá.... ekki 
veitir af! Þá verður Guðmundur Ólafsson fagstjóri fornleifa á staðnum frá 
klukkan 19 til 20:30 og segir gestum frá kumlum og beinum á grunnsýningu 
Þjóðminjasafnsins.
Börn og fullorðnir geta farið í æsispennandi ratleiki um safnið: Hvar eru 
beinin? og Hvar eru vættirnar? og skjámyndasýning með háskalegum fróðleik 
um drauga verður sýnd allt kvöldið á þriðju hæð. Efnt verður til samkeppni 
í draugateikningum og í boði eru vinningar. Skotta og Móri skjótast 
þusandi og þrefandi fram og aftur meðal gesta og svo er spurning hvort 
draugar séu líka í Safnbúðinni og veitingastofunni Kaffitári.
Dularfullar verur af ýmsu tagi verða á sveimi á þessu kynngimagnaða kvöldi 
í Þjóðminjasafni Íslands. Spennan magnast og nær hámarki á miðnætti en 
áður en allt fer úr böndunum er ætlunin að kveða myrkraverurnar niður með 
liðveislu ljóssins.
Sýningaopnanir klukkan 20:
Tvær nýjar ljósmyndasýningar verða opnaðar klukkan 20 á hinni mögnuðu 
safnanótt Þjóðminjasafnsins. Í Myndasalnum verður opnuð sýningin Til gagns 
og til fegurðar - sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði á Íslandi 
1860-1960. Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur er sýningarhöfundur og kynnir 
rannsóknir sínar á útliti og klæðaburði Íslendinga í ljósmyndum þessa 
tímabils, bæði á sýningunni og í samnefndri bók sem kemur út við þetta 
tilefni. Samtímis verður sýningin Tvö-þúsund-og-átta opnuð á Veggnum með 
ljósmyndum Veru Pálsdóttur af fatatísku nútímans og fríkuðum fastagestum á 
skemmtistaðnum Sirkus. Sýningarnar standa til 4. maí.
Safnanótt er haldin í tengslum við Vetrarhátíð í Reykjavík. Þá er opið og 
ókeypis inn á öll söfn í borginni fram yfir miðnætti (19-01) og sérstök 
safnarúta gengur milli safnanna allt kvöldið.

Bestu kveðjur / Best regards
Rúna K. Tetzschner
kynningarstjóri / Public Relation Manager
Þjóðminjasafn Íslands / National Museum of Iceland
Suðurgötu 41 - 101 Reykjavík
fars. 824-2039, s. 530-2222 eða 5302248
netf. runa at thjodminjasafn.is
veff. http://www.thjodminjasafn.is

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20080205/95b86924/attachment.html


More information about the Gandur mailing list