[Gandur] Dagskrá um Jónas Svafár

ReykjavíkurAkademían ra at akademia.is
Mon Oct 22 10:58:22 GMT 2007


teikning eftir Jónas Svafár


Jónas Svafár


Fimmtudagskvöldið 25. október kl 20:00 verður haldin dagskrá til heiðurs 
Jónasi Svafár (1925---2004), skáldi og myndlistarmanni, í sal 
ReykjavíkurAkademíunnar. Dagskrá þessi er haldin í tengslum við sýningu 
á teikningum eftir Jónas sem nú stendur yfir í Hoffmannsgallerí, en það 
er einmitt til húsa á sama stað.

Á samkomunni flytur Benedikt Hjartarson erindi um Jónas og lesin verða 
ljóð eftir hann. Einnig mun hópur myndlistarmanna og rithöfunda flytja 
eftir sig verk, og er það hugsað sem nokkurs konar framhald eða ítrekun 
á þeim samslætti listgreina sem Jónas stundaði í verkum sínum. Í bókum 
sínum birti hann bæði ljóð og myndir en þó án þess að annar þátturinn 
væri í þjónustu hins, eins og oft vill verða um myndskreytingar bóka, 
heldur ríkir þar ákveðin heildarhugsun. Jónas vann því með bókina sem 
form og útkoman varð oftar en ekki hreinræktað bókverk.

ReykjavíkurAkademían er til húsa að Hringbraut 121, 4. hæð. Aðgangur er 
ókeypis.

Í texta með fyrrgreindri sýningu sem Ingólfur Arnarson skipulagði, 
skrifa þeir Ingólfur og Benedikt:


Teikningar

Teikningarnar sem hér eru til sýnis eru allar í eigu Sólveigar 
Einarsdóttur systur Jónasar. Flestar þeirra eru líkar þeim sem finna má 
í bókum hans eða svolítið breyttar. Erfitt er að tala um frummyndir því 
hann endurvann þær oft og tók til endurskoðunar. Jónas vann jöfnum 
höndum að skáldskap og myndlist og tvinnaði þessum greinum saman á 
áhugaverðan máta í bókum sínum. Að þessu sinni eru myndirnar einungis 
til sýnis. Þær urðu flestar til á sjötta áratug síðustu aldar á miklum 
umbrotatímum í íslensku samfélagi, í miðjum átökum hlutbundinna og 
óhlutbundinnar myndlistar, atomskáldskapar og eldri ljóðforma og almennt 
milli hefða bændasamfélags og nútímans. Þessi átök má greina á 
óvenjulegan máta í myndum og ljóðum Jónasar Svafár. Teikningarnar sem 
hér eru til sýnis eru allar unnar hægum dráttum með mjúku ritblýi á 
pappír. Nokkuð sem ekki greinist á grafísku eftirmyndunum í bókunum. 
Framlag Jónasar til íslenskrar menningar er ekki mikið að vöxtum en 
áhugavert og sérstakt.

Ég þakka hjónunum Sólveigu Einarsdóttur og Gunnari Valdimarssyni, Séra 
Erni Bárði Jónssyni fyrir veitta aðstoð.

/Ingólfur Arnarsson sýningarstjóri/

 

Jónas E. Svafár: Myndir og ljóð

 Jónas E. Svafár hefur einkum öðlast sess innan íslenskrar menningarsögu 
sem ljóðskáld. Í fyrstu tveimur ljóðabókum hans, Það blæðir úr 
morgunsárinu(1952) og Geislavirk tungl(1957), var sleginn nýstárlegur 
tónn í íslenskri ljóðagerð, sem enn má heyra enduróm af í ljóðum yngri 
skálda. Innan íslenskrar bókmenntasögu eiga verk Jónasar sér vísan stað, 
þótt efnistök þeirra og framsetning séu sérstæð og verkin liggi á jaðri 
hennar. Sjaldnar hefur myndverkum Jónasar verið veitt eftirtekt og helst 
að minnst hafi verið á þau í framhjáhlaupi sem myndskreytingar er fylgi 
ljóðunum. Líkt og undirtitlarnir í verkum Jónasar draga fram -- "Ljóð og 
myndir" (Það blæðir úr morgunsárinu), "Ný ljóð og myndir" (Geislavirk 
tungl), "Teikningar, kvæði og ljóð" (Klettabelti fjallkonunnar, 1968) og 
"Myndljóð" (Sjöstjarnan í meyjarmerkinu, 1986) -- er teikningunum þó 
augljóslega ætlað annað og meira en að þjóna sem hefð-bundnar 
myndskreytingar við hið ritaða orð. Þögnin sem ríkt hefur um myndverk 
Jónasar er e.t.v. lifandi dæmi um þá bókhneigð sem oft verður ríkjandi 
þegar leitast er við að skilgreina svið íslenskrar menningar og draga 
upp mynd af sögu hennar. Einnig má varpa fram þeirri spurningu hvort 
vinna Jónasar með mörk og tengsl hinna ólíku listgreina hafi haft slíka 
sérstöðu á sjötta áratugnum að örðugt hafi reynst að finna henni stað í 
kortlagningu á einkennum og straumum tímabilsins. Á sýningunni sem hér 
er fylgt úr hlaði fá myndverk Jónasar að lifa sjálfstæðu lífi, án 
tengsla við ljóðin sem þau hafa svo lengi legið í skugganum af. Þeir sem 
þekkja til ljóða hans koma þó auga á kunnuglegan, hrekkvísan og 
gáskafullan leik. Í reiki teikninganna á mörkum hins óhlutbundna og 
fígúratífa er komið að efnivið sköpunarinnar úr óvæntum áttum -- á sama 
hátt og brugðið er á leik með tungumálið í ljóðum Jónasar er hér brugðið 
á leik með myndflötinn, hann skoðaður úr ólíklegustu áttum og honum 
snúið á alla kanta í skapandi tilraun með skilning og skynjun viðtakandans.

/Benedikt Hjartarson/

*
The Reykjavik Academy

Viðar Hreinsson
*Framkvæmdastjóri / Executive Director
phone (+354) 562 8565 (+354) 562 8561, (+354) 844 8645
fax (+354) 562 8528
e-mail vidar at akademia.is
www.akademia.is


<http://www.akademia.is>

-------------- next part --------------
Skipped content of type multipart/related


More information about the Gandur mailing list