[Gandur] Minni. Félag um munnlega hefð

Rósa Þorsteinsdóttir rosat at hi.is
Sat Feb 10 01:33:22 GMT 2007


Minni - Félag um munnlegan menningararf var formlega stofnað laugardaginn
27. janúar
síðastliðinn. Stofnfundinn sóttu um þrjátíu manns og bárust félaginu þar
að auki
óskir um aðild víða að. Markmið Minnis eru að að skapa samræðugrundvöll
fyrir þá
aðila sem áhuga hafa á þessum flokki heimilda og að efla söfnun,
varðveislu, miðlun
og rannsóknir á munnlegum heimildum. Inngöngu í félagið geta fengið allir
þeir sem
áhuga hafa á munnlegum menningararfi. Í stjórn voru kjörin Rósa
Þorsteinsdóttir
þjóðfræðingur, sem var einnig kjörin formaður, Örn Hrafnkelsson forstöðumaður
Handritadeildar Landsbókasafns, Margrét Jóhannsdóttir kennari, Sigrún
Jónsdóttir
forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar og Unnur María Bergsveinsdóttir
starfsmaður
Miðstöðvar munnlegrar sögu.

Strax að stofnfundi loknum stóð hið nýstofnaða félag fyrir málþingi um notkun
munnlegra heimilda á Íslandi. Frummælendur á ráðstefnunni voru Kristín
Loftsdóttir
mannfræðingur, Unnur María Bergsveinsdóttir sagnfræðingur og starfsmaður
Miðstöðvar
munnlegrar sögu, Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur á Stofnun Árna
Magnússonar í
íslenskum fræðum og Þorsteinn Helgason dósent í sagnfræði við Kennaraháskóla
íslands.Málþingið var vel sótt og spunnust fjörugar umræður út frá erindum
fyrirlesara. Kennaraháskóli Íslands bauð upp á veitingar að málþinginu loknu.

Jórunn Sigurðardóttir dagskrárgerðarkona á Rás 1 og umsjónarmaður þáttarins í
Heyranda Hljóði var viðstödd málþingið og má næstu tvær vikurnar hlýða á
umfjöllun
hennar um þingið og búta úr erindum frummælenda á vefsíðu Rásar 1
(http://dagskra.ruv.is/ras1/?file=2941) Einnig er hægt að nálgast upptökur af
erindunum á vefsvæði
Minnis(http://munnlegsaga.is/page/mms_felag_felagsstarf_malthing).

Opnað hefur verið vefsvæði fyrir félagið á vef Miðstöðvar munnlegrar sögu
(http://munnlegsaga.is/page/mms_minni)og innan skamms verður hægt að skrá
sig þar á
póstlista félagsins. Þeim sem hafa áhuga á að fá fréttir úr starfi
félagsins eða að
skrá sig í félagið er í millitíðinni bent á að hafa samband við Unni Maríu
Bergsveinsdóttur í gegnum netfangið unnurm at bok.hi.is



F.h. stjórnar Minnis,

Unnur María Bergsveinsdóttir



More information about the Gandur mailing list