[Gandur] Leiðsögn um Leiðina á milli í Bogasal Þjóðminjasafnsins 2. sept. kl. 15 - brot fortíðar í listskynjun nútímans

frettatilkynning at thjodminjasafn.is frettatilkynning at thjodminjasafn.is
Thu Aug 30 15:53:32 GMT 2007


Leiðsögn um Leiðina á milli - brot fortíðar í listskynjun þriggja 
listakvenna nútímans

Nú eru síðustu forvöð að fá leiðsögn um sýninguna Leiðina á milli í 
Bogasal Þjóðminjasafnsins. Sunnudaginn 2. september klukkan 15 verða 
listakonurnar þrjár sem verk eiga á sýningunni allar á staðnum og segja 
gestum frá listsköpun sinni. 

Listakonurnar eru þær Guðbjörg Lind Jónsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir og 
Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá sem kenna sig við Andrá. Gaman er að 
hlusta á þær útskýra og túlka eigin sýningu og ættu gestir ekki að láta 
þetta tækifæri fram hjá sér fara.

Sýningin Leiðin á milli hefur hlotið góða dóma. Listakonurnar vinna þar 
með þjóðararfinn og sækja innblástur í muni úr Þjóðminjasafninu. Áður en 
sýningin var opnuð hélt Andrárhópurinn meðal annars í könnunarleiðangur um 
geymslur safnsins og naut leiðsagnar sérfræðinga.

Á sýningunni eru þrjár innsetningar listakvennanna, Hringhenda , 
Aðdráttarafl og Gestrisni. Ný verk eru sett í samhengi við gömul og 
þjóðminjar þannig sýndar í nýju ljósi. Leiðin liggur milli staða, milli 
einstaklinga, milli fortíðar og líðandi stundar, listtjáningar fyrr og nú, 
menningararfsins sem geymdur er í Þjóðminjasafninu og listrænnar 
endursköpunar hans. Oddný Eir Ævarsdóttir sýningarstjóri segir: 
,,Einkennandi fyrir allar þessar leiðir er ákveðin togstreita og úr henni 
má lesa þrá eftir hreyfingu. Stundum í hring, örlítið skakkan, 
þráhyggjulega endurtekinn eða leikandi hraðan út fyrir túngarða og mörk 
tímans.”

Myndlistarkonurnar þrjár tjá hugmyndina um leiðina hver á sinn hátt en 
leiðir þeirra í tjáningunni fléttast líka saman. Sýninguna má skoða sem 
stefnumót þeirra við listamenn fyrri alda, skáldin og ferðalangana 
Látra-Björgu, Bólu-Hjálmar Jónsson og Jónas Hallgrímsson. Á ferðalögum 
sínum komu þau þrjú víða við sem gestir og þökkuðu fyrir sig með orðum, 
ljóðum, listaverkum og uppfinningum. Þeim er einnig boðið á sýninguna í 
Bogasalnum þar sem myndlistarkonurnar þrjár eru gestgjafar.

Guðrún, Kristín og Guðbjörg Lind gera ekki fræðilega úttekt á listamönnum 
fortíðarinnar heldur nálgast þá gegnum sköpun, bæði þeirra sköpun og sína 
eigin, og einnig gegnum persónulega muni. Guðrúnu opnaðist sýn inn í 
kveðskaparheim Bólu-Hjálmars gegnum fagurlega útskorinn skáp hans sem nú 
er í eigu Þjóðminjasafnsins og Kristín náði sambandi við Jónas 
Hallgrímsson með því að draga rauða skrifborðið hans fram úr safngeymslu. 
Kaffibollar mynda tengingu Guðbjargar Lindar við förukonuna Látra-Björgu 
sem yfirgaf eldhússtörfin.

Myndlistarkonurnar þrjár sjá fyrir sér leiðir þessara þriggja listamanna 
fyrri alda, leiðir sem liggja að krossgötum á sýningunni í Bogasalnum. 
Eftir þessum leiðum koma ferðalangarnir.

Mikilvægt er að menningarminjum eins og þeim sem geymdar eru í 
Þjóðminjasafni Íslands sé miðlað til umheimsins og það má gera á marga 
vegu. Ein miðlunarleiðin felst í listrænni endursköpun eins og þeirri sem 
sjá má hjá Andrárhópnum. Í meðförum myndlistarkvennanna er 
menningararfurinn settur í annað samhengi en áður og gegnum það fær hann 
nýtt og óvænt líf. Sýningin í Bogasalnum er óður til þeirrar brotakenndu 
arfleifðar sem varðveist hefur í Þjóðminjasafninu og öðrum söfnum. 
Kristín, Guðrún og Guðbjörg Lind raða brotum fortíðarinnar saman gegnum 
listræna skynjun og listsköpun.

Sýningin Leiðin á milli í Bogasalnum stendur til 30. september.



Bestu kveðjur / Best regards
Rúna K. Tetzschner
kynningarstjóri / Public Relation Manager
Þjóðminjasafn Íslands / National Museum of Iceland
Suðurgötu 41 - 101 Reykjavík
fars. 824-2039, s. 530-2222 eða 5302248
netf. runa at thjodminjasafn.is
veff. http://www.thjodminjasafn.is


-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20070830/49939926/attachment.html


More information about the Gandur mailing list