[Gandur] Fatnaður í fornum heimildum

Aðalheiður Guðmundsdóttir adalh at hi.is
Fri Nov 17 15:26:44 GMT 2006


Fatnaður í fornum heimildum: Þemakvöld Félags þjóðfræðinga á Íslandi

Nú er komið að 1. þemakvöldi Félags þjóðfræðinga þetta misserið,  
fimmtudaginn 23. nóvember kl. 20.00. Fyrirlesarar eru Anna Zanchi og  
Fríður Ólafsdóttir. Þemakvöldið fer að venju fram í húsi  
Sögufélagsins við Fischersund.

Anna Zanchi, doktorsnemi í forníslenskum bókmenntum við University  
College London: Græni liturinn í forníslenskum bókmenntum:  
náttúrulegur, yfirnáttúrulegur, táknrænn?

Grænn litur kemur óvíða fyrir í íslenskum fornritum. Tilfellin eru á  
dreif og ekki auðfundin. Í fyrirlestrinum verður ljósi varpað á  
notkun fornnorræna lýsingarorðsins grænn og ýmissa afleiddra orða í  
margs konar samhengi. Notkunin verður athuguð í tengslum við örnefni  
og staðhætti á Íslandi sem og í hinu ímyndaða landslagi fornnorrænna  
goðsagna. Einkum verður fjallað um grænan fatnað í fornritunum,  
tákngildi hans og yfirnáttúruleg tengsl. Dæmi verða helst tekin úr  
Íslendingasögum og -þáttum, en þó einnig úr fornaldarsögum,  
konungasögum, Landnámu, Íslendingabók, Færeyingasögu,  
Jómsvíkingasögu, Þiðreks sögu af Bern, íslenskum þjóðsögum,  
eddukvæðum og Snorra Eddu.

Anna stundar nám við University College London, Department of  
Scandinavian Studies og vinnur nú að rannsókn sinni á Stofnun Árna  
Mágnússonar í íslenskum fræðum. Hún hefur haldið fyrirlestra og birt  
greinar um forníslenskar bókmenntir víða á Englandi, og þá einkum um  
klæðnað í Íslendingasögum og Íslendingaþáttum.

Fríður Ólafsdóttir, dósent: Klæðnaður fyrr á öldum

Fjallað verður um klæðnað með hliðsjón af umhverfi, búsetu, starfi og  
þjóðfélagslegri stöðu einstaklinga og hópa. Mið verður tekið af  
hráefni til klæðagerðar, áhöldum og aðferðum sem þróuðust í íslenskri  
fatagerð.


Nánari upplýsingar um starf Félags þjóðfræðinga er að finna á  
slóðinni http://www.akademia.is/thjodfraedingar/

Allir velkomnir!

Með kveðju f. hönd félagsins,

Aðalheiður Guðmundsdóttir
Stofnun Árna Magnússonar
Árnagarði við Suðurgötu
tel.: (354) 868 0306/ (354) 552 0510
http//:www.hi.is/~adalh








More information about the Gandur mailing list