[Gandur] Alan Dundes allur

Valdimar Tryggvi Hafstein vth at hi.is
Fri Apr 1 18:03:00 BST 2005


Alan Dundes, prófessor í þjóðfræði við Kaliforníuháskólann í Berkeley,
lést á miðvikudaginn, sjötugur að aldri.

Dundes var einhver áhrifamesti þjóðfræðingur okkar tíma og átti drjúgan
þátt í að móta fagið á síðari hluta tuttugustu aldar. Hann var jafnframt
ákaflega afkastamikill, en eftir hann liggja á annað hundrað greina og
tugir bóka um aðskiljanlegustu efni, allt frá goðsögum til amerísks
fótbolta og allt frá Auschwitz-bröndurum til Kóransins. Verk hans eru
lesin alls staðar þar sem þjóðfræði er kennd og þjóðfræðinemar við Háskóla
Íslands hafa kynnst ýmsum þeirra í gegnum tíðina.

Ég naut handleiðslu Alan Dundes og vináttu frá því ég fór til hans í
framhaldsnám fyrir átta árum. Örlátari maður er vandfundinn. Enginn sem
til hans leitaði kom nokkurn tímann að tómum kofanum og nemendur sína
umgekkst hann rétt eins og við værum börnin hans. Í hans fari fóru saman
eldheit ástríða og óbilandi kímnigáfa, víðfeðm þekking og endalaus
forvitni, heillandi fordómaleysi og algert virðingarleysi fyrir viðteknum
skoðunum og pólitískum rétttrúnaði.

Ég held það sé erfitt fyrir þá sem ekki þekkja til að átta sig á hve áhrif
Dundes á fagið eru mikil, mun meiri en ritaskráin hans segir til um þó
stór sé í sniðum og fáir komist með tærnar þar sem hann hafði hælana í
rannsóknum, birtingum og útbreiðslu þeirra. Alan Dundes flutti
heiðursávarp á ársráðstefnu bandarísku þjóðfræðisamtakanna í október
síðastliðnum frammi fyrir sex hundruð þjóðfræðingum sem starfa við fagið
þar í landi. Áður en hann flutti undirbúna ræðu, bað hann nemendur sína í
salnum að rétta upp hönd. Eitt af öðru hófum við hendur á loft og áður en
yfir lauk hafði meira en þriðjungur viðstaddra svarið sig í þennan
félagsskap. Þetta var áhrifamkil stund og það fór kliður um salinn meðan
menn áttuðu sig á því sem blasti við augum. Hér stóð maður sem aldrei
kenndi við þjóðfræðideild, þjóðfræðingur sem hélt úti eins-manns MA
prógrammi í Berkeley, fjarri stóru deildunum í Penn, Indiana, UCLA og
Texas, þar sem hefði mátt ætla að flestir sem eru virkir í fræðunum hefðu
hlotið sitt uppeldi. En á ári hverju kynnti Dundes 300-400 BA-nema fyrir
þjóðfræði í frægum inngangskúrsi (þar sem alltaf mynduðust langir
biðlistar þó svo kennslan færi fram í stærsta hátíðarsal háskólans) og
fóstraði 2-3 nýja MA-nema. Svo mikil áhrif hafði hann á nemendur sína, að
á hverju ári héldu nokkrir þeirra áfram og lögðu þjóðfræðina fyrir sig sem
ævistarf. Þá er ekki bara að finna í Bandaríkjunum, heldur um allan heim,
enda lagði Dundes alltaf mikla áherslu á að þjóðfræðin væri alþjóðlegt
fag.

Alan Dundes varð bráðkvaddur í miðri kennslustund, í málstofunni fyrir
framhaldsnema sem hann kenndi á hverju ári í sömu stofunni á sama tíma, á
miðvikudögum frá 4-6. Við nemendur hans vissum í hjarta okkar að svona
myndi hann kveðja á endanum, því hann unni kennslunni allt of mikið til að
fara nokkurn tímann á eftirlaun (og hefði komist upp með það gagnvart
skólanum að kenna endalaust).

Dundes skilur eftir sig eiginkonu, Carolyn, þrjú börn, Lauren, Alyson og
David, og mörg hundruð nemendur sem hann gekk í föðurstað í Berkeley í
Kaliforníu.

Minningargreinar um Alan Dundes eru þegar farnar að birtast. Sjá t.d.
http://www.berkeley.edu/news/media/releases/2005/03/31_dundes.shtml

http://www.sfgate.com/cgi-bin/article.cgi?f=/c/a/2005/04/01/BAGLHC1NOC1.DTL

http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/articles/A17389-2005Mar31.html

Valdimar Tr. Hafstein



More information about the Gandur mailing list