[Folda] Fræðsluerindi HÍN í janúar

Ester Yr Jonsdottir ester at fsu.is
Fri Jan 22 12:55:01 GMT 2010


Ágæta fjölmiðlafólk,

Við viljum koma á framfæri við ykkur tilkynningu vegna fræðsluerindis Hins
íslenska náttúrufræðifélags.

*„Nýja Ísland: Ný sýn á jarðfræði Íslands“*
Dr. Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, heldur
erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt
*mánudaginn
25. janúar kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju*, Náttúrufræðihúsi Háskóla
Íslands.  Aðgangur er öllum heilmill og ókeypis.

Vinsamlega miðlið og komið málinu á framfæri.


*Ágrip *af erindi dr. Hauks Jóhannessonar, jarðfræðings hjá Íslenskum
orkurannsóknum.

*„Nýja Ísland: Ný sýn á jarðfræði Íslands“*

Fyrirlesturinn fjallar um sögu gosbeltaflutninga á Íslandi og í honum eru
settar fram hugmyndir um að gosbeltaflutningar hafi verið fimm eða sex á
síðustu 16 milljón árum, en ekki tvisvar eins og talið hefur verið. Hvert
gosbelti er virkt í tiltölulega skamman tíma, 2-4 milljónir ára, en færir
sig svo um set. Samhverfur sem fylgja slíkum gosbeltum eru flestar grafnar
undir yngri jarðmyndunum frá yngri gosbeltum og á því er aðeins ein
undantekning en það er hið forna Snæfellsnesgosbelti.

Farið er yfir jarðsögu Íslands í nýju ljósi og uppbyggingu landsins.
Sprungukerfi eru flóknari en talið var, einkum á vesturflekanum og augljóst
að mörg þeirra eru enn virk. Flest þessara sprungukerfa eru leifar gamalla
sniðgengiskerfa sem fylgdu fyrri gosbeltaflutningum. Yfirborðsjarðhitinn
fylgir sprungukerfunum eins og skugginn sem gefur til kynna að kerfin séu
enn virk. Þar liggur líklega skýringin á því að mikill jarðhiti er á
Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi en lítill á Austurlandi.

Í þessari úttekt er fundin skýring á meiri háttar rofmislægjum og
setlagabunkum sem lengi hafa valdið mönnum heilabrotum. Einnig bendir
ýmislegt í efnafræði heits vatns til þess að kvika sé tiltölulega grunnt
undir Vestfjörðum. Þegar litið er á sprungukerfin læðist að manni sá grunur
að huga þurfi að skjálftahættu á vestanverðu landinu í þessu nýja ljósi.


Fyrir hönd stjórnar HÍN,
Ester Ýr Jónsdóttir
Umsjónarmaður fræðsluerinda HÍN
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/folda/attachments/20100122/110e59d6/attachment.html 


More information about the Folda mailing list