[Folda] Lífríkiskreppur í Mývatni - Erindi á vegum HÍN

Friðgeir Grímsson fossil at hi.is
Thu Jan 22 14:14:26 GMT 2009


Ágæti viðtakandi

 

Mánudaginn 26. janúar kl. 17:15 verður haldið fjórða fræðsluerindi vetrarins
og það fyrsta á nýju ári. 

Erindið verður haldið í fyrirlestrarsal Menntaskólans við Sund að Gnoðarvogi
43.

 

Lífríkiskreppur í Mývatni

Dr. Árni Einarsson líffræðingur flytur erindi um rannsóknir á lífríki
Mývatns. Erindið er byggt á rannsóknum Árna og samstarfsmanna hans síðustu
árin. Niðurstöður þeirra voru nýlega birtar í hinu merka tímariti Nature.
Árni lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1976 og doktorsprófi í
vistfræði frá háskólanum í Aberdeen í Skotlandi 1986. Hann hefur starfað við
rannsóknir á Mývatni frá árinu 1975 og er forstöðumaður
Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. 

 

Mývatn er einhver lífauðugasti staður hér á landi. Frjósemi vatnsins er
óvenju mikil og má rekja hana til sjaldgæfra jarðfræðilegra aðstæðna. Fylgst
hefur verið með vatninu og lífríki þess í aldarþriðjung og hefur komið í
ljós að lífríkið er miklum sveiflum undirorpið og eru líkur á að sveiflurnar
hafi tekið á sig núverandi mynd um 1970. Sveiflur í átustofnum hafa nú leitt
til þess að bleikjustofn þessa fornfræga veiðivatns stendur ekki lengur
undir neinni veiði svo heitið geti. Fuglastofnar vatnsins eru þó enn í góðu
lagi. Sveiflur átustofnanna eru öfgakenndar og er hundraðþúsundfaldur munur
á fjölda mýflugna í hámarksárum miðað við lágmarkstímabil, svo dæmi sé
tekið. Nýjustu rannsóknir sýna að átustofnarnir hrynja í kjölfar offjölgunar
á mýflugulirfum sem ná að éta fæðuna frá afkomendum sínum. Eldri kynslóðir
af mýflugulirfum sóa þannig auðlindum afkvæma sinna. Sveiflugangurinn er
háður óvenjulegum en þó náttúrulegum lögmálum en sveiflurnar virðast hafa
dýpkað vegna þess að straumakerfi vatnsins hefur breyst af manna völdum.

 

(ágrip í fullri lengd og myndir má nálgast á heimasíðu félagsin; www.hin.is)

 

Þessi tilkynning er send starfsmönnum helstu stofnana og fyrirtækja sem fást
við rannsóknir á náttúru Íslands. 

Vonum að sem flestir mæti.

 

Fyrir hönd Hins íslenska náttúrufræðifélags

Friðgeir Grímsson, fræðslufulltrúi HÍN

 

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/folda/attachments/20090122/bebff1ec/attachment.html


More information about the Folda mailing list