[Folda] Fyrirlestur á vegum land- og ferðamálafræðistofu í dag
Helgi Arnar Alfreðsson
haa4 at hi.is
Tue Sep 30 09:39:58 GMT 2008
Fyrirlestur á vegum land- og ferðamálafræðistofu:
Þróun rofbakka og áfok úr fjörum við Blöndulón
Olga Kolbrún Vilmundardóttir flytur fyrirlestur á vegum land- og
ferðamálafræðistofu við Háskóla Íslands
Dags.: Þriðjudaginn 30. september 2008
Kl.: 12.30-13.10
Staður: Askja, stofa 132
Olga stundar meistaranám í landfræði við líf- og umhverfisvísindadeild
Háskóla Íslands. Rannsóknaverkefni hennar snýr að landmótun við
miðlunarlón en rannsóknasvæðið er Blöndulón. Auk þess er viðnám
gróðurs gegn sandfoki kannað í áfoksgeira. Olga er komin vel á veg með
verkefni sitt og mun í erindinu gera grein fyrir stöðu þess og fyrstu
niðurstöðum.
Ágrip
Markmið rannsóknarinnar sem kynnt verður er að mæla og lýsa þróun
bakkarofs við Blöndulón og kanna dreifingu vindborins efnis upp frá
strönd lónsins.
Blöndulón var myndað árið 1991 og stækkað 1997 og hafa mælingar á rofi
farið fram á 16 sniðum umhverfis lónið, á einum stað frá 1997-2007 en
á hinum frá 2004-2007. Gerð er grein fyrir umhverfisþáttum við
mælisniðin: jarðgrunni, jarðvegsþykkt og gjóskulögum, halla og stefnu
lands, aðdragi, ölduálagi og hæð bakka. Áfok úr fjörum var vaktað á
völdum stöðum og kortlagt að vorlagi 1998-2008 en heildarútbreiðsla
foksands upp frá lóninu var kortlögð 2007.
Landslagsgreining á söfnunarsvæðum foksands var gerð með
landhæðarlíkani í ArcGIS hugbúnaði.
Niðurstöður sýna að rof úr bökkum vegna ölduálags var örast fyrstu ár
eftir stækkun við norðan- og vestanvert lónið, en þar er jafnframt
hæsta reiknaða ölduálagið. Ströndin einkennist af löngu aðdragi af
suðri og austri, landhalli er umtalsverður (yfir 5%) og stefna veit
gegn ríkjandi vindáttum.
Jarðgrunnur er jökulruðningur en stórgrýti í honum veitir vörn gegn
ölduálagi og hefur dregið verulega úr rofi þar. Við sunnanverða
ströndina er enn ört rof þrátt fyrir lágt ölduálag. Ástæðu þess er
einkum að rekja til þess að þar er jarðgrunnur jökuláset sem er ýmist
sendið eða úr fínkorna möl og veitir litla vörn gegn öldu. Helstu
ferlar sem nú móta rofbakka lónsins eru öldurof og setflutningur vegna
ölduhreyfinga, vatnsrof vegna úrkomu og grunnvatnsflæðis úr bökkum sem
og kulferli.
Áfok hefur endurtekið átt sér stað úr víkum sem eru opnar gegn suðri
og hafa áfoksgeirar myndast í grónu landi. Setsöfnun er mest í hlíðum
sem snúa á móti suðri og suðvestri og hún er mest í 4-5% halla, en ef
halli er meiri dregur úr setsöfnun. Áfoksefnið er aðallega gjóska
upprunnin í jarðvegi sem losnar úr bökkum. Áfokið endurspeglar
setsöfnunarstaði í lóninu, árstíðabundnar lónshæðarsveiflur og
vindafar svæðisins.
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/folda/attachments/20080930/29b226ba/attachment.html
More information about the Folda
mailing list