<div class="body">
<h1><strong>Strandhögg 12. – 14. júní 2009</strong></h1>
<p>Landsbyggðarráðstefna Sagnfræðingafélags Íslands og Félags
þjóðfræðinga á Íslandi í samstarfi við Þjóðfræðistofu og
ReykjavíkurAkademíuna.</p>
<p>Nú, um áratug frá fyrstu Landsbyggðarráðstefnu félaganna tveggja, er
efnt til ráðstefnu með breyttu sniði í samstarfi við Þjóðfræðistofu og
ReykjavíkurAkademíuna. Ráðstefnan verður haldin á Ströndum, þar sem
Þjóðfræðistofa hefur höfuðstöðvar sínar, helgina 12. - 14. júní 2009.
Með þátttöku heimamanna og valinkunnra fræðimanna verður lögð áhersla á
framsögu á vettvangi – allt frá Konungsvörðu og norður í Krossneslaug.</p>
<p>Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er „Strandhögg“ en
umfjöllunarefnið tengsl Íslands við umheiminn; dreifbýlis og
höfuðstaðar; norðurs og suðurs; jaðars og miðju, bæði í staðbundnu
samhengi sem þverþjóðlegu. Meðal annars verður vikið að blómlegri
síðari alda handritamenningu á jaðri Evrópu; iðkun ímynda norðursins á
erlendri grundu; iðnaði erlendra þjóða á Íslandi 17. aldar í óþökk
konungs; förumönnum og þjóðfræði á mörkum mennskunnar; og framtíð fræða
og lista á landsbyggðinni. Auk þess verður sagt frá þjóðfræði og sögu
Stranda. Ráðstefnugestir munu gista á Hólmavík og nágrenni, en tekið
verður vel á móti þeim bæði á Sauðfjársetri og Þjóðfræðistofu að
ógleymdum öndvegisveitingastaðnum Café Riis. Þá verður farið í
vettvangsferð norður í Árneshrepp og fluttir fyrirlestrar á hinum ýmsu
áföngum ferðarinnar.</p>
<p><a href="http://www.sagnfraedingafelag.net/wp-content/uploads/2009/04/strandhogg-drog-ac3b0-dagskra.doc">Dagskrána má sjá hér</a>: <a href="http://www.sagnfraedingafelag.net/wp-content/uploads/2009/04/strandhogg-drog-ac3b0-dagskra.doc">http://www.sagnfraedingafelag.net/wp-content/uploads/2009/04/strandhogg-drog-ac3b0-dagskra.doc</a> <br>
en góðir <a href="http://www.sagnfraedingafelag.net/wp-content/uploads/2009/04/strandhogg-gisting.doc">gistimöguleikar hér</a>: <a href="http://www.sagnfraedingafelag.net/wp-content/uploads/2009/04/strandhogg-gisting.doc">http://www.sagnfraedingafelag.net/wp-content/uploads/2009/04/strandhogg-gisting.doc</a></p>
<p>Skráning á ráðstefnuna fer fram á netfanginu <a href="mailto:irisel@hi.is">irisel@hi.is</a>.
Ráðstefnugestir sjá sjálfir um að panta gistingu að eigin vali með því
að hafa samband við staðarhaldara sem taldar eru upp undir
gistimöguleikum. Taka þarf fram að pöntunin sé í tengslum við
ráðstefnuna Strandhögg.</p>
<p>Verði er stillt í hóf. Þátttökugjald er 5000 kr. og eru allar
rútuferðir (frá og til Reykjavíkur og á milli ráðstefnustaða) þar
innifaldar.</p>
<p>Þessa fínu dagskrá ætti enginn að láta fram hjá sér fara - bókið strax.</p></div>