<div class="gmail_quote"><div style="margin: 0cm 0cm 0pt; line-height: normal;"><font size="5" face="Times New Roman">Saga til næsta bæjar</font></div>
<div style="margin: 0cm 0cm 0pt; line-height: normal;"><b><font size="3"><font face="Times New Roman">Sagnir, samfélag og þjóðtrú sagnafólks frá austurhéraði Vestur-Skaftafellssýslu</font></font></b></div>
<p style="margin: 0cm 0cm 0pt; line-height: normal; text-align: left;" align="left"><span style="font-size: 12pt;"><font face="Times New Roman"> </font></span></p>
<p style="margin: 0cm 0cm 0pt; text-align: justify;"><span style="font-size: 12pt;"><font face="Times New Roman">Júlíana Magnúsdóttir flytur erindið <b>Saga til næsta bæjar</b> sem fjallar um sagnir, samfélag og þjóðtrú sagnafólks frá austurhéraði Vestur-Skaftafellssýslu. <b>Hefst klukkan 17:15 fimmtudaginn 5. mars í stofu 102 í Odda.</b> Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.</font></span><font size="3" face="Times New Roman"><br>
</font></p><p style="margin: 0cm 0cm 0pt; text-align: justify;"><font size="3" face="Times New Roman"><br></font></p><p style="margin: 0cm 0cm 0pt; text-align: justify;"><font size="3" face="Times New Roman">Efni erindisins eru helstu niðurstöður samnefnds MA verkefnis í þjóðfræði frá árinu 2008. Í verkefninu voru teknar til skoðunar um 750 sagnir 102 einstaklinga frá austurhéraði Vestur-Skaftafellssýslu, en þetta hérað gengur í dag undir heitinu Skaftárhreppur. Heimildir samanstóðu af prentuðum sögnum í þjóðsagnasöfnum 19. og 20. aldar, hljóðrituðum sögnum af segulbandasafni stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi frá seinna skeiði 20. aldar, auk hljóðritaðra sagna fengnum í viðtölum teknum á árunum 2000 og 2006. </font></p>
<p style="margin: 0cm 0cm 0pt; text-indent: 36pt; line-height: normal;"><font size="3" face="Times New Roman">Í erindinu verður fjallað um niðurstöður greiningar á sagnagerðum, sögustöðum, sögupersónum og efnistökum sagna heimildamannanna 102. Þá verður einnig sagt frá helstu einkennum þjóðtrúar og dulrænnar reynslu sem birtast í sögnunum og þróun þeirra í gegnum það tímabil sem heimildirnar spanna. Í stuttu máli leiddi rannsóknin ekki aðeins í ljós nokkur svæðisbundin sérkenni sagnahefðar og þjóðtrúar, heldur einnig mjög fjölbreytta og ólíka notkun fólks á slíkum hefðum innan þess héraðs sem rannsóknin beindist að. </font></p>
</div><br>