<br><font size=4 face="sans-serif">Vegna útfarar Hallgerðar Gísladóttur,
fagstjóra Þjóðháttasafns, </font>
<br><font size=4 face="sans-serif">verður Þjóðminjasafn Íslands lokað frá
klukkan 14 í dag, föstudaginn 9. febrúar. </font>
<br>
<br><font size=2 face="sans-serif">Útför Hallgerðar verður gerð frá Neskirkju
klukkan 15 í dag.</font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Í dag kveðjum við kæra samstarfskonu
Hallgerði Gísladóttur fagstjóra þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands.
Hallgerður var mikilsmetinn fræðimaður og liðsmaður Þjóðminjasafnsins,
og bar hróður þess víða. </font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Hallgerður hóf fyrst störf fyrir
Þjóðminjasafnið sumarið 1976 þegar hún ásamt fleiri stúdentum tók þátt
í söfnunarátaki þjóðfræða um allt land sem unnið var í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Aðalviðfangsefnin voru fráfærur, selfarir, vatns- og vindmyllur þótt fleira
flyti með. Næstu ár fékkst Hallgerður í hlutastarfi við úrvinnslu og skrásetningu
þess mikla afraksturs sem varð af söfnuninni. Einnig vann hún við að skrásetja
þjóðfræðileg minnisblöð danska fræðimannsins Holger Kjær sem ferðaðist
um Ísland árið 1929.</font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Árið 1982 var Hallgerður fastráðin
við Þjóðminjasafn Íslands og árið 1995 tók hún við stöðu deildarstjóra
þjóðháttadeildar og síðar fagstjóra þjóðháttasafns, sem hún gegndi til
dauðadags. Smám saman tók eitt svið öðru fremur hug Hallgerðar fanginn,
en það var matarmenning íslensku þjóðarinnar. Hún vann að viðamikilli söfnun
fróðleiks um forna matarhætti en þessum sjálfsagðasta þætti daglegs lífs
hafði hingað til lítt verið sinnt skipulega. Hallgerður sat meðal annars
árum saman í Matráði Kvenfélagasambandsins, Klúbbs matreiðslumanna og Ríkisútvarpsins
sem vann að söfnun gamalla mataruppskrifta og öðrum fróðleik um matarhætti
og heimsótti í þessu skyni ákveðin svæði á landinu.</font>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Hallgerður var alla tíð í farsælu
sambandi við heimildarmenn safnsins sem skiptu hundruðum og reyndi að heimsækja
þá eftir því sem tíminn leyfði og afla nýrra. Einnig sá hún öðrum fremur
um að skipuleggja starf stúdenta á dvalarheimilum aldraðra til að spyrja
vistmenn um daglegt líf í æsku þeirra. Þannig öðlaðist hún yfirgripsmikla
þekkingu á hinum mörgu sviðum þjóðháttanna um leið og hún styrkti tengsl
Þjóðminjasafnsins við landsmenn. Fyrir störf sín á þessu sviði er Hallgerður
þekkt langt út fyrir landsteinana. </font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Hallgerður náði miklum árangri
á sérsviði sínu og var jafnan reiðubúin að takast á við ný verkefni af
fagmennsku, dugnaði og frjórri hugsun. Hún miðlaði þekkingu sinni og árangri
rannsókna á margvíslegan hátt. Hún flutti víða fyrirlestra, skrifaði fjölda
greina og sá um útvarpsþætti og sjónvarpsþætti um sérsvið sitt. Aðalrit
Hallgerðar <i>Íslensk matarhefð</i> kom út árið 1999. Það var tilnefnt
til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut viðurkenningu Hagþenkis og
Bókasafnssjóðs höfunda. Samhliða starfi sínu við Þjóðminjasafn Íslands
var Hallgerður stundakennari á sínu sérsviði við Háskóla Íslands og átti
þannig ríkan þátt í því að efla tengsl Þjóðminjasafnsins og Háskólans.
</font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Auk árangurs hennar á sviði rannsókna,
safnastarfs og ritstarfa var framlag hennar við gerð hvers kyns sýninga
á vegum Þjóðminjasafnsins ómetanlegt. Hæst ber þar þátt hennar við undirbúning
opnunar Þjóðminjasafns Íslands á ný árið 2004. Þar gegndi hún afar ábyrgðarmiklu
hlutverki við mótun nýrrar grunnsýningar safnsins. Hún ritstýrði margmiðlunarefni
sýningarinnar, var sjálf höfundur margmiðlunarkynningar um móðuharðindin,
annar tveggja ritstjóra og einn af aðalhöfundum grunnsýningartextanna.
Þáttur hennar í þessum krefjandi verkefnum verður seint fullþakkaður. Jafnframt
ritaði Hallgerður vandaða grein í grunnrit Þjóðminjasafnsins <i>Hlutaveltu
tímans. Menningararfi á Þjóðminjasafni</i>, sem kom út við opnun
grunnsýningarinnar. Auk þess ritstýrði og ritaði hún í bókina <i>Í eina
sæng. Íslenskir brúðkaupssiðir</i>, sem út kom árið 2004 með sérsýningu
safnsins í Bogasal sama ár. </font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Hallgerður var mikilhæfur safnamaður
og fræðimaður en hún var ekki ein þeirra sem helst vilja loka sig af á
eigin sérsviði, heldur var jafnan reiðubúin að taka til hendi þar sem safnfólkið
þurfti að vinna saman. Hún tók virkan þátt í félagslífi og kjarabaráttu
og var enda formaður Félags íslenskra safnmanna 1991 til 1993 og formaður
kjaradeildar Félags íslenskra fræða 1999 til 2001. Einnig kom hún að rannsóknum
á manngerðum hellum, tók þátt í leiklistarstarfi, var ljóðskáld og lagði
sitt af mörkum í varðveislu á kveðskap og rímum. Þannig kom Hallgerður
víða við á sínum ferli, sem brautryðjandi og fagmaður með góða yfirsýn
og þekkingu. </font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands
þakka ég Hallgerði Gísladóttur fyrir hennar merka og framúrskarandi framlag
til þjóðminjavörslu og þjóðháttafræða á Íslandi. Ævistarf hennar er umfangsmikið
og sýnilegt. Einnig vil ég þakka fyrir gefandi samstarf og vináttu. Fyrir
hönd samstarfsmanna votta ég eiginmanni hennar, Árna Hjartarsyni og sonum
þeirra Eldjárni og Guðlaugi Jóni, mínar dýpstu samúðarkveðjur.</font>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Heiðruð sé minning Hallgerðar Gísladóttur.</font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands,</font>
<br><font size=2 face="Times New Roman">Margrét Hallgrímsdóttir</font>
<br>
<br><font size=2 face="Times New Roman">http:/www.thjodminjasafn.is</font>
<br>
<br>