[Gandur] Skilafrestur ágripa 7. janúar: Norræna þjóðfræðiráðstefnan v/HÍ í júní

Valdimar Tryggvi Hafstein - HI vth at hi.is
Wed Jan 5 15:06:12 GMT 2022


Kæru þjóðfræðingar!

Við eigum von á gestum -- nokkur hundruð þjóðfræðingum frá Norðurlöndunum og víðar að á norrænu þjóðfræðiráðstefnuna sem Félag þjóðfræðinga og Námsbraut í þjóðfræði og safnafræði standa sameiginlega að og fer fram við Háskóla Íslands 13.-16. júní nk.

Nú er kallað eftir erindum inn í 44 málstofur og vinnustofur ráðstefnunnar, sem snúast m.a. um mannslíkamann, tilfinningar, stafræna menningu, umhverfi, sjálfbærni, fólkflutninga og hreyfanleika, menningararf, menningarskil, hinseginleika, traust, ábyrgð, eftirlit, staðartengsl, landslag, þjóðfræði menntunar, sögu fagsins, söfn og arkív, frásagnir, samband manna og annarra tegunda, sjávarhætti, kælitækni, preppara, vettvangsrannsóknir á framtíðinni, daglegt líf, endurtekningu, tímaskynjun og tímaskipan.

Hægt er að senda tillögur að erindum inn í einhverja þessara málstofa fram til 7. janúar -- skoðið þær endilega hér: ethnofolk.org

Seinnipart janúar verður svo opnað fyrir skráningu á ráðstefnuna, hvort sem fólk verður sjálft með samþykkt erindi eða vill bara taka þátt. Við lofum spennandi dagskrá og miklu fjöri -- og hlökkum til að leiða saman sem allra flesta íslenska þjóðfræðinga og þennan fjölda þjóðfræðinga frá grannlöndunum. Þetta verður veisla!

Með bestu kveðju,
Dagrún & Valdimar



More information about the Gandur mailing list