[Gandur] Þjóðfræði fyrirlestrar 22. nóvember

Félag þjóðfræðinga á Íslandi felagthjodfraedinga at gmail.com
Tue Nov 20 15:21:16 GMT 2018


Þjóðfræði fyrirlestrar - Selfoss og sundlaugar

Fimmtudaginn 22. nóvember munu tveir þjóðfræðingar, Katrín Dröfn
Guðmundsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir, kynna efni nýlegra MA ritgerða
sinna í Odda 106 í Háskóla Íslands kl. 17:15-18:30.

Eins og við vitum öll eru ritgerðir í þjóðfræði einstaklega áhugaverðar og
skemmtilegar og hvetjum við ykkur því öll til að koma og fræðast og njóta.
Ágrip að fyrirlestrum má finna hér að neðan.

Eftir fyrirlestrana munum við svo fara á Stúdentakjallarann og fá halda
fjörinu áfram. Hlökkum til að sjá ykkur!

Katrín Dröfn Guðmundsdóttir
Áhrif sundlauga: líðan, upplifun, hegðun
Í erindinu fjalla ég um rannsókn og efni lokaritgerðar sem ég skrifaði í
meistaranáminu mínu í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Efnistök
ritgerðarinnar eru áhrifaþættir á líðan, upplifun og hegðun þeirra sem
sækja sundlaugar á Íslandi. Sundlaugar hér á landi þjóna mikilvægu
hlutverki í lífi þeirra sem sækja laugarnar reglulega. Afmarkaði ég
rannsóknina við þann hóp sem fer í sund til að vera einn með sjálfum sér og
upplifa oft á tíðum endurnærandi áhrif. Mun ég gera grein fyrir
rannsóknarferlinu sem og lýsa helstu þemum ritgerðarinnar.

Vilhelmina Jónsdóttir
Meistararitgerðin „Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja – nýtt
miðbæjarskipulag á Selfossi” fjallar um tilvist fortíðar í samtímanum.
Ritgerðin byggir á eigindlegri rannsókn, aðallega djúpviðtölum sem tekin
voru á tímabilinu október 2016 til desember 2017. Um er að ræða
tilviksrannsókn þar sem nýju miðbæjarskipulagi á Selfossi eru gerð skil. Í
tillögunni um nýjan miðbæ er fyrirhugað að endurgera ríflega þrjátíu hús
sem áður stóðu víðs vegar um landið en brunnu, voru rifin eða eyðilögðust
með öðrum hætti. Viðmælendur vörpuðu ljósi á með hvaða hætti fólk upplifir
fortíðina og hvernig tengsl við hana verða til í gegnum úrvinnsluferli
merkingarmyndunar. Efnisleg fyrirbæri, líkt og hús, eru ekki nauðsynleg í
þessu ferli en geta verið sem tæki eða verkfæri í ferlinu. Fram komu ólík
sjónarmið til sanngildis og þess hvort og með hvaða hætti tillagan um nýjan
miðbæ á Selfossi ber fortíðinni trúverðugt vitni. Í viðhorfunum birtist
mikilvægi þess að húsin sem fyrirhugað er að endurgera hefðu merkingarbæra
sögn í hugum íbúa sem og að þau féllu að söguvitund þeirra og þekkingu.
Fram kom með hvaða hætti sviðsetning á fortíðinni féll að sjálfsmynd
bæjarbúa og hvernig hún hefði áhrif á ímynd bæjarins. Þá kom einnig fram
mikilvægi þess að íbúar hefðu möguleika til að hafa áhrif á ákvörðunartöku
um uppbyggingu á miðbænum sem og möguleika til áhrifa og umsköpunar.

Fyrir hönd stjórnar Félags þjóðfræðinga,
Dagrún Ósk


More information about the Gandur mailing list