[Gandur] VAKA – þjóðleg listahátíð á Akureyri 10.–13. júní

Rósa rosat at hi.is
Thu May 14 13:18:45 GMT 2015



VAKA — Þjóðleg listahátíð á Akureyri

10.–13. júní 2015

Viltu hlýða á Króka-Refs rímur, spila fiðlutónlist frá Skotlandi, reyna þig í riverdance, læra að syngja íslenskan tvísöng eða einfaldlega hlýða á frábært tónlistarfólk víða að úr veröldinni?  Komdu þá á Vöku, þjóðlega listahátíð á Akureyri 10.-13. Júní.

Hátiðakort 7.500/6.500*

Á Vöku verður boðið upp á stórkostlegt úrval af alþýðulist: tónlist, söng og kveðskap, dans og handíðir frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Englandi, Skotlandi, Wales, Ástralíu og Armeníu. Hátíðin stendur í fjóra daga þar sem verður spilað, sungið og dansað frá morgni til miðnætursólar.

Komdu til Akureyrar í júní og taktu þátt í fjörinu!

Á Vöku er stefnt að því að bjóða upp á eitthvað fyrir alla. Dagskrána í heild sinni er hægt að skoða bæði á íslensku og ensku á heimasíðu hátíðarinnar www.vakafolk.is þar sem einnig má nálgast upplýsingar um miðaverð og kaupa miða.

Aðgöngumiðar: Allar upplýsingar um miðaverð, bæði á alla hátíðina og einstaka viðburði er að finna á heimasíðu hátíðarinnar www.vakafolk.is.

* Afsláttur er veittur fyrir nema, eldri borgara, öryrkja og atvinnuleitendur. Á síðunni er líka hægt að kaupa miða.

Á tónleikum sem haldnir verða síðdegis og á kvöldin má sjá og heyra fleiri en 100 framúrskarandi þjóðtónlistarfólk og dansara.

Laugardaginn 13. júní verða Króka-Refs rímur kveðnar í fyrsta sinn opinberlega af nokkrum úrvalskvæðamönnum. Þetta er sérstök sviðsetning á rímnaflokknum sem ortur var af Hallgrími Péturssyni á 17. öld eftir sögunni af Króka-Ref sem reis úr öskustónni og sannaði sig bæði með kænsku, hugrekki og hagleik.

Námskeið verða haldin fyrir alla aldurshópa, bæði byrjendur og lengra komna. Lærðu að spila fiðlutónlist frá Hjaltlandi og Skotlandi af Wilma Young og Wendy Stewart. Reyndu þig í írskum dansi (Riverdansi) með O'Shea-Ryan Academy of Irish Dance eða íslenskum þjóðdönsum með félögum úr dansfélaginu Vefaranum. Lærðu að syngja íslensk tvísöngslög hjá Báru Grímsdóttur. Spilaðu sænska polka með Erik Ask-Upmark og Anna Rynefors í Dråm, eða finndu eitthvað allt annað.

Upplýsingar um öll námskeiðin sem í boði verða er að finna á íslensku og ensku á heimasíðu hátíðarinnar www.vakafolk.is þar sem einnig er hægt að skrá sig á námskeið.

Spilað og sungið. Á öllum góðum tónlistarhátíðum er boðið upp á vettvang þar sem fólk getur komið saman til að spila, syngja og segja sögur. Vaka er engin undantekning frá þessu. Boðið verður upp á slíkar óformlegar samkomur í hádeginu alla dagana þar sem listamenn hátíðarinnar verða gestgjafar, en fjölmörg önnur tækifæri munu gefast til að koma saman til að jamma, spila og syngja.

Lokahófið fer fram í Sjallanum laugardagskvöldið 13. júní en það verður einstök skemmtun. Þar munu margir listamenn hátíðarinnar koma fram og hinir íslensku, írsku og dönsku danshópar munu sýna dansa og gefa gestum færi á að taka þátt.

Handíðasýningar. Á Vöku mun Þjóðháttafélagið Handraðinn setja upp tvær handíðasýningar.

Listafólk sem kemur fram á Vöku:

Nánari upplýsingar er að finna á www.vakafolk.is

Sænski dúettinn Dråm kemur með hörpu, nikkelhörpu, sekkjapípur og dans. www.draam.com

Í hljómsveitinni Sans er fólk frá Finnlandi, Englandi og Armeníu, sem laðar fram heillandi hljóm ólíkra radda með sítar, fujara duduk, bassaklarinetti og mannsröddinni. www.cloudvalley.com/SANS.htm

Spilmenn Ríkínís er fjölskylduhljómsveit úr vesturbæ Reykjavíkur sem syngur og spilar íslenska þjóðlagatónlist á fjölmörg skemmtileg og „gömul“ hljóðfæri. www.facebook.com/spilmennrikinis

Enska þjóðlagasöngkonan og fiðluleikarinn Jackie Oats er í fremstu röð þjóðlagasöngvara Englands og hefur hlotið fjölda verðlauna. Heimsókn hennar er hluti af tónleikaferð vegna nýju plötunnar The Spyglass and The Herringbone. www.jackieoates.co.uk

Kantele snillingurinn Minna Raskinen frá Finnlandi tvinnar saman náttúrulega tóna og heim raftónlistarinnar. www.minnaraskinen.com

Dansfélagið Vefarinn á Akureyri og Danshópurinn Sporið frá Borgarnesi hressa heldur betur upp á miðbæinn er þau dansa íslenska þjóðdansa við gömul og ný lög. www.sporid.vesturland.is

Keltneski söngvarinn Gillebride MacMillan frá Suðureyjum, notar eingöngu rödd sína og persónutöfra til að heilla áhorfendur upp úr skónum. www.gillebride.com

Frá Skotlandi og Hjaltlandi koma hörpu- og konsertínuleikarinn og söngvarinn Wendy Stewart (http://www.wendystewart.co.uk) og fiðlarinn Wilma Young.

Íslensk/enski dúettinn Funi flytur hefðbundna söngva Íslands við undirleik langspils, íslenskrar fiðlu, kantele og gítars. www.funi-iceland.com

Frá Wales kemur Taith Dúettinn, Dylan Fowler og Gillian Stevens. Þau spila á mörg þjóðarhljóðfæri eins og hið forna velska Crwth (lýru). www.taithrecords.co.uk

Frá Austurlandi kemur hópurinn Þræðir með ljóðrænan spuna þar sem hefðbundin kvæðalög eru klædd í litríkan hljóðheimsbúning. http://warenmusic.bandcamp.com/album/r-ir-lindur-sem-kli-a

Frá hinum virta dansskóla O'Shea-Ryan koma dansarar á öllum aldri til að kenna og sýna riverdans og aðra írska dansa.

Þjóðdansahópur frá Danmörku sýnir okkur hvað Danir geta verið litríkir og skemmtilegir.

Anna Fält frá Finnlandi opnar fyrir áheyrendum heillandi og margslunginn hljóðheim sænskra og finnskra þjóðlaga með röddinni einni saman. http://annafalt.wordpress.com

Benjamin Bech klarinettleikari kemur frá Danmörku, en hann rannsakar nú íslenska danslagahefð.

vakafolk.is




More information about the Gandur mailing list