[Gandur] Efnismenning geimsins. Fatnaður og samfélag um borð í stjarnflaugum framtíðarinnar. Þjóðminjasafn, mánudaginn 12. maí kl. 12:05. Allir velkomnir.

Valdimar Tryggvi Hafstein vth at hi.is
Mon May 5 15:50:36 GMT 2014


 


Efnismenning geimsins 
Fatnaður og samfélag um borð í stjarnflaugum framtíðarinnar


Karl Aspelund 
gestalektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands 
og lektor í hönnun við Rhode Island University


Innsetningarfyrirlestur í stöðu gestalektors 
við námsbraut í þjóðfræði og safnafræði 
við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands

Mánudaginn 12. maí kl. 12:05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins



Ágrip 
Stefnt er að því að senda mannaðar stjarnflaugar út fyrir sólkerfið innan eitt hundrað ára. Á næstu áratugum verða jafnframt til varanleg samfélög manna í geimstöðvum og á öðrum hnöttum. Rétt eins og á jörðinni verður klæðnaður í geimnum einn þráður í flóknum vef efnismenningar í þessum samfélögum. Sá þráður liggur hins vegar víða. 

Nú er nýhafin rannsókn á því hvers konar klæðnað langdvöl í geimnum útheimtir. Aðstæður í geimnum og fjarlægðin frá jörðu kallar á algera sjálfbærni í allri framleiðslu og notkun fatnaðar. Því ber nauðsyn til að leita býsna róttækra lausna. Þær lausnir snúast meðal annars um gerð textílefna og efnafræði, fatagerð og hönnun, en þær krefjast þess líka að gefinn sé góður gaumur að menningunni í kringum föt. Samfélag stjarnflaugarinnar mun fljótlega slitna úr tengslum við menningu jarðarinnar og verður þess vegna að vera sjálfu sér nægt. Það mun mynda sína eigin heild með tilheyrandi sérkennum. Þá fer að skipta máli hvernig klæðnaður mótar einstaklinga og samfélög og hvernig skapandi hugsun tengir manneskjurnar saman og við umhverfi sitt. 

Einhverjar kerfisbreytingar virðast óumflýjanlegar á félagsgerð og efnismenningu mannlegs samfélags í geimnum. Þrátt fyrir að stjarnflaugin marki að vissu leyti hámark módernískrar hugmyndafræði setja náttúra geimsins og stærð farsins samfélaginu um borð slíkar skorður að líklega verður að byggja það á eldri þjóðfélagsmynstrum. Þessi þversögn er þó tálsýn og hún leysist upp hugsi maður stjarnflaugina sem umgjörð utan um nýtt stig iðnvædds samfélags, þar sem það hefur náð jafnvægi í sátt við umhverfi sitt. Grundvöllur farsæls geimsamfélags er nefnilega nákvæmlega sá sami og grundvöllur farsæls samfélags á jörðinni; rannsóknir sem undirbúa sjálfbært líf og menningu um borð í stjarnflaug geta haft veruleg áhrif til batnaðar á jörðinni löngu áður en flaugin sjálf verður ferðbúin.



More information about the Gandur mailing list