[Gandur] Fyrirlestur Aðalheiðar Guðmundsdóttur 16. apríl

"Kristín Einarsdóttir" kriste at hi.is
Fri Apr 11 15:17:00 GMT 2014


 Þann 16. apríl kl. 12:00 - 13:00  mun Aðalheiður Guðmundsdóttir dósent í
þjóðfræði flytja fyrirlestur í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns.
Fyrirlesturinn kallar hún ,,Allar góðar vættir – og vondar".

Íslenskar vættir eru af ýmsum toga og öll könnumst við við sögur af álfum,
dvergum, djöflum, tröllum og risum eða annars konar kynjaskepnum. Allt eru
þetta sögur sem við lærðum og lásum sem börn og flest eigum við líklega
erfitt með að ímynda okkur æskuárin án þess að hafa komist í kynni við
ljúflinga sem elskuðu ungar stúlkur, selkonuna sem átti sjö börn á landi
og sjö í sjó, þær Gilitrutt og Grýlu í fjöllunum, Skottu, Móra,
Þorgeirsbola og annars konar illþýði sem átti það til að plaga fólk, sem
nógu átti nú erfitt fyrir. Þessar vættir – sem og aðrar úr þjóðsögunum –
hafa þó lifað mislengi með þjóðinni og líklegt er að börn og unglingar á
miðöldum hafi alist upp við annars konar sögur, af öðrum vættum sem eru þó
engu að síður náskyldar þeim yngri. Af þekktum vættum fyrri tíma má t.d.
nefna drauginn Glám, drekann Fáfni, hinn hlægjandi marbendil, haugbúa,
hamskiptinga í formi úlfa, bjarna eða annars konar villidýra og tröllkonur
á borð við þær Brönu og Gríði. Í fyrirlestrinum verður fjallað um
fjölbreytileika íslenskra vætta í sagnaarfi fyrri alda, birtingamyndir
þeirra og þróun. Leitast verður við að varpa ljósi á hlutverk þeirra í
sögunum, eðli og merkingu. Hver er munur góðra vætta og vondra og fyrir
hvað standa þær? Til hvers eru illvættir og hvað ætlumst við til að þær
geri á meðan við biðjum einungis Guð og góðu vættirnar um að vaka yfir
börnunum okkar? Ætli við gætum kannski virkjað þær í uppeldinu líka?



More information about the Gandur mailing list