[Gandur] Ævisögur merkismanna á átjándu öld

Aðalheiður Guðmundsdóttir adalh at hi.is
Wed Nov 6 12:26:24 GMT 2013


FRÉTTATILKYNNING

Ævisögur merkismanna á átjándu öld

Í byrjun nóvember kom út bókin Ævisögur ypparlegra merkismanna. Höfundur hennar er Jón Ólafsson úr Grunnavík og útgefendur eru Góðvinir Grunnavíkur-Jóns. Þetta er heildarútgáfa á ævisögum sex merkismanna en þeir eru: Árni Magnússon prófessor í Kaupmannahöfn, Jón Magnússon, bróðir Árna, Páll Vídalín lögmaður í Víðidalstungu, Oddur Sigurðsson lögmaður, Skúli Magnússon landfógeti (brot) og loks er sjálfsævisaga og ritaskrá bókarhöfundar. Hér er og örsaga eftir hann, hárbeitt ádeila á danska Íslandskaupmenn.

Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705–1779) starfaði lengstum að fornfræðum við Árnasafn í Kaupmannahöfn, var af samtíðarmönnum sínum talinn minnugur og margfróður. Hann ólst upp hjá Páli Vídalín lögmanni í Víðidalstungu, var síðasti skrifari Árna Magnússonar prófessors og vinur Skúla Magnússonar fógeta. Jón þekkti persónulega alla þá sem hann skrifaði um og eru mannlýsingar hans einstaklega nákvæmar, sannorðar og sjónrænar og einkennast af djúpri virðingu höfundar.  Útkomu bókarinnar ber upp á sama tíma og minnst er 350 ára afmælis Árna Magnússonar prófessors og handritasafnara, en í bókinni eru tvær gerðir ævisögu hans og mun þar margt koma kunnuglega fyrir sjónir þeim sem lesið hafa Íslandsklukku Halldórs Laxness. Bókin er 378 blaðsíður, sett eftir eiginhandarritum höfundar, en prentuð með nútímastafsetningu. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfuna og samdi nafnaskrá, textaskýringar og inngang um tilurð og varðveislu ævisagnanna eftir því sem lesa má úr bréfauppköstum Jóns sjálfs, en hann skrifaðist á við fjölda fólks á Íslandi um verk sín og líðan.


Guðvarður Már Gunnlaugsson
Handritasviði / Árnasafni						Manuscript Department / The Árni Magnússon Manuscript Collection
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum	The Árni Magnússon Institute for Icelandic Studies
Árnagarði við Suðurgötu						Árnagarður, Suðurgata
101 Reykjavík								IS-101 Reykjavík
525 4024									354-525 4024
525 4035									354-525 4035
http://arnastofnun.is/							http://arnastofnun.is/page/arnastofnun_frontpage_en

_______________________________________________



More information about the Gandur mailing list