[Gandur] Vísindakaffi - má bjóða þér fróðleikssopa?

Félag þjóðfræðinga á Íslandi thjodfraedingar at gmail.com
Mon Sep 24 20:07:46 GMT 2012


Í aðdraganda Vísindavöku er hellt upp á hið sívinsæla Vísindakaffi, þar sem
fræðimenn munu kynna rannsóknir sínar á óformlegan hátt. Vísindakaffin eru
haldin á Súfistanum, Máli og menningu Laugavegi, 24., 25., 26. og 27.
september kl. 20:00-21:30 hvert kvöld. Þar kynna vísindamenn á ýmsum
fræðasviðum kynna rannsóknir sínar sem allar eiga það sameiginlegt að vera
áhugaverðar fyrir fólk á öllum aldri. Gestir fá tækifæri til að spyrja og
taka þátt í umræðum. 

Dagskrá á Súfistanum í Reykjavík: 

Mánudagur 24. september
Sýkingar og pestir - hvað er til ráða?
Sigurður Guðmundsson læknir og prófessor við læknadeild HÍ og 
Þórólfur Guðnason barnalæknir og yfirlæknir á sóttvarnasviði
Landlæknisembættisins 
Smitsjúkdómar eru algengustu sjúkdómar sem manninn hrjá. Flestir eru
saklausir og batna fljótt án meðferðar, en aðrir eru erfiðari og hættulegri
og geta jafnvel dregið hraustan mann til dauða á fáeinum klukkustundum. Rætt
verður um helstu orsakir sýkinga, muninn á bakteríum, veirum og sveppum,
algengustu sýkingar og einkenni alvarlegra sýkinga. Fjallað verður um varnir
gegn sýkingum, hvað fólk getur gert til að forðast þær í daglegu lífi,
mikilvægi bólusetninga og hvað ferðamenn til fjarlægra landa eiga helst að
varast. Jafnframt verður talað um rannsókn á sýkingum á dagheimilum sem
verið er að gera hérlendis. 

Þriðjudagur 25. september 
Jarðskjálftar - er jörðin að segja okkur eitthvað? 
Sigríður Kristjánsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR 
Hvað er jarðskjálfti? Hvað geta jarðskjálftar sagt okkur um jörðina okkar?
Höfum við eitthvað um það að segja hvar eða hvenær jarðskjálfti á sér stað?
Eru þeir alltaf óvelkomnir eða eru þeir lykillinn sem opnar okkur dyr að
huliðsheimum jarðskorpunnar? 

Miðvikudagur 26. september
Eru jöklarnir að hverfa? 
Þorsteinn Þorsteinson, jöklafræðingur hjá Veðurstofu Íslands
Jöklar þekja tíunda hluta landsins og hafa veruleg áhrif á náttúrufar á
Íslandi. Þeir geyma mikinn vatnsforða sem fer rýrnandi með hlýnandi
loftslagi. Hve mikil var leysingin á jöklum landsins í sumar? Hvert er
áætlað framlag jöklaleysingar á Íslandi til hækkunar sjávarborðs á þessari
öld? Hverjar verða afleiðingar þessara breytinga fyrir vatnsorkunýtingu og
samgöngur? Hvernig geta rannsóknir á Íslandi gagnast könnun Mars og ístungla
sólkerfisins? 

Fimmtudagur 27. september
Skiptir náttúrufegurð einhverju máli?
Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki við Háskóla
Íslands
Fagurfræðileg gildi vega oft ekki þungt í ákvarðanatöku um vernd og nýtingu
náttúru. En á sama tíma virðast fagurfræðileg gildi vera eitt mikilvægasta
gildi sem almenningur telur íslenska náttúru búa yfir. Hverskonar
hugleiðingar, þekkingu, upplifun, merkingu og gildi skapar reynslan af
náttúrufegurð? Hafa viðbrögð við náttúrufegurð einhverjar afleiðingar fyrir
siðferðilegt viðhorf manna til náttúrunnar? Skiptir náttúrufegurð einhverju
máli fyrir lífsgæði okkar? Er hægt að meta náttúrufegurð?



More information about the Gandur mailing list